Afþreying

Allir vilja halda góðri heilsu og lifa góðu lífi. Undirstaða vellíðunar og langlífis er holl útivist og góð hreyfing. Fátt er betra og óvíða gefst betra tækifæri til að njóta fjölbreyttrar útivistar í fögru umhverfi en í Þingeyjarsýslu.

Alls staðar í sýslunni má finna skemmtilegar gönguleiðir við allra hæfi og enginn skortur er á fjöllum til að spreyta sig á og njóta útsýnis af. Fjölbreyttar reiðleiðir liggja um sýsluna þvera og endilanga og víða eru hestaleigur. Í Þingeyjarsýslu er fjöldin allur af ám og vötnum spriklandi af fiski og því ekki úr vegi að grípa veiðistöngina með. Ekki má heldur gleyma golfkylfunum því hér eru fjórir skemmtilegir 9 holu vellir í fjölbreytilegu umhverfi. Það er sérstök upplifun að spila golf í miðnætursólinni.

Viljirðu prófa eitthvað öðru vísi er margt hægt að gera ef leitað er eftir því. Víða með ströndinni eru skemmtilegar aðstæður fyrir kajakaróður og í Kinnarfjöllum er að finna eitthvert skemmtilegasta ísklifursvæði á landinu. Um veturinn er hér frábært gönguskíðaland og oft hægt að ganga langt fram á vor. Þú gætir líka prófað að spila golf á ís nú eða þá dorgað í gegnum hann.

Þeir möguleikar sem svæðið býður upp á takmarkast nær eingöngu við hugmyndaflugið. Að loknum góðum útivistardegi er svo ómissandi að slaka á í heitu baði undir berum himni.