Haust

Haustið býr yfir sérstökum töfrum. Því fylgir ákveðin dulúð og hjá sumum er þessi árstími í uppáhaldi. Bæði náttúran og mannlífið búa sig undir að kyrrðin færist yfir og njóta þess sem sumarlokin hafa upp á að bjóða. Fé kemur af fjalli og fólk fjölmennir í réttirnar, syngur og nýtur lífsins.
Náttúran býður upp á hlaðborð síðustu ávaxta sumarsins. Hvarvetna freista lyngbrekkur fullar af berjum og skógarreitir með úrvali lostætra sveppa. Sumir vilja bara aðalbláber, öðrum finnst krækiberin best. Enn aðrir tína hrútaber eða einiber. Sumir koma heim með fullar fötur; sulta, safta og frysta en aðrir tína bara upp í sig og njóta útiverunnar.
September er frábær tími til að heimsækja Norðausturland og ferðast um með myndavélina. Þingeysk náttúra tekur sífellt á sig nýjar myndir við ólík birtuskilyrði. Með haustinu verður loftið svo ferskt, laufið prýðist litríkum haustskrúða, sólin lækkar á himninum og skuggar skerpast. Þá má enn njóta veðurblíðu, veitingastaðir bjóða allt það besta í mat og drykk og kyrrð er að færast yfir mannlífið.