Vetur

Norðausturland hefur verið kallað land vetrarævintýranna. Þegar jörðin klæðist fannhvítum feldi og flóran sefur vetrarsvefni fara jólasveinarnir sem búa í Dimmuborgum að hugsa sér til hreyfings. Þá bjóða Þingeyingar upp á fjölbreytta möguleika til ævintýra og hressandi tilbreytingar frá hversdagsamstrinu. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem hugurinn stefnir til gönguferða, skíðaiðkunar, snjósleðaferða eða jafnvel ísklifurs.

Í Mývatnssveit er hægt að leigja gönguskíði eða kaupa aðgang að Vetrargarðinum þar sem í boði eru Go-kart bílar, ískeila, ísgolf og krikket á ís. Við Kröflu er einnig lítil togbraut. Jarðböðin við Mývatn eru opin allan ársins hring. Þar slakar þreytt útivistarfólk á í lóninu eftir viðburði dagsins með stjörnubjartan himininn fyrir augum eða í snjófjúki ef svo ber undir.
Allt getur gerst yfir vetrarmánuðina.

Skíðasvæði Húsvíkinga er við bæjardyrnar. Rétt við skólann er lyfta sem opin er þegar færi gefst. Við Botnsvatn og á Reykjaheiði í nágrenni Húsavíkur eru góðar gönguskíðabrautir og þær má líka finna á íþróttasvæði bæjarins sem og í Aðaldalshrauni. Í Kinnarfjöllum, vestan Skjálfandaflóa eru aðstæður til ísklifurs einstakar og mjög rómaðar af fremstu klifurgörpum heims.

Útsýni frá fjöllum er mikið og fagurt og norðurljós sjást oft hátt á himni í heiðskíru veðri. Tilvalið er að nota frí um jól og áramót til hressandi og endurnærandi ferða í faðm hárra, hvítra fjalla. Slík minning gleymist seint þeim er það reyna. Á Þorranum fagnar fólk því að senn hækki sól á lofti.