Vor

Á vorin vaknar náttúran af vetrardvala. Gróður lifnar við og tún fara að grænka. Bændur huga að nýbornum ám og litlum lömbum, við höfnina færist aukið líf í karlana. Lax gengur í árnar og fuglasöngur ómar um holt og hæðir. Það er létt yfir heimamönnum og ferðafólki. Allir fyllast útþrá. Suma langar að sigla um spegilsléttan sjóinn, aðra langar á fjöll eða í útreiðartúr – eða eitthvað sem enginn veit! Hrífandi náttúra er við hvert fótmál, þitt er að velja.

Hægt er að aka meðfram ströndinni og kynnast lífinu í sjávarbyggðunum. Margir nota tækifærið og bregða sér í hvalaskoðunarferð frá Húsavík og frá Raufarhöfn er boðið upp á siglingar norður fyrir heimskautsbaug. Fyrir áhugafólk um fuglaskoðun er Langanesið nánast óþrjótandi gnægtabrunnur og sama má segja um umhverfi Mývatns og Laxár.

Óbyggðirnar kalla. Hvarvetna er ósnortin náttúra, hálendi Íslands í öllu sínu veldi. Í boði eru ferðir að Herðubreið, í Öskju, í Hvannalindir og Kverkfjöll svo aðeins fáir hálendisgullmolar séu nefndir. Sannkallaðar ævintýraferðir um fjöll og firnindi sem enginn gleymir.