Fuglastígur

Hvergi á Íslandi er að finna fjölbreyttara fuglalíf á vorin og sumrin en í Þingeyjarsýslu, þar sem hæglega má finna 70 tegundir á einum degi.

Mývatnssveit er þekkt fyrir fallegt umhverfi og fuglalíf er þar einstaklega fjölbreytt. Hvergi í heiminum er að finna fleiri andategundir yfir sumartímann. Þar og í Aðaldal eru einu varpstaðir húsandar í Evrópu. Hrafnsönd og gargönd eru einnig fágætar hér á landi utan Þingeyjarsýslu.

Í Öxarfirði eru votlendissvæði sem eru ákaflega mikilvæg ýmsum fuglum. Þar er eina varpsvæði skúms á Norðurlandi og mest er það á Austursandi. Á Víkingavatni er annað stærsta flórgoðavarp landsins. Fuglalíf er fjölbreytt á Melrakkasléttu yfir sumartímann og það er öllum ógleymanleg lífsreynsla að dvelja þar, þó ekki sé nema hluta úr degi, og fylgjast með fuglunum. Á Rauðanúp er auðvelt að nálgast fuglabjarg og súluvarp.

Á Langanesi eru heimkynni fjölda fuglategunda. Bjargfuglinn, langvía, rita og fýll, verpir þar í Skoruvíkurbjargi og víðar þar sem fótfestu er að fá í björgum. Súlan er einkar tígnarlegur fugl og stundum nefnd drottning Atlantshafsins. Á klettadranginum Stórakarli undir Skoruvíkurbjargi er annað mesta súluvarp landsins. Meðan byggð var á utanverðu nesinu var eitt mesta kríuvarp á landinu í Skoruvík en krían er farin þaðan eins og fólkið. Enn er mikið um kríu um mitt nesið.

Í birkiskógum Þingeyjarsýslu er mikið um smáfugla. Þrösturinn er algengur, auðnutitlingur verpir þar og margar fleiri tegundir. Fuglalíf er líka fjölskrúðugt í óbyggðum. Á heiðum Þingeyjarsýslu er meira um rjúpu en annars staðar á landinu og hana eltir fálki og veiðir sér til matar. Á sumrin verpir heiðagæs meðfram upptökum Skjálfandafljóts í vestanverðu Ódáðahrauni. Álftir eru á ám og vötnum, stór fugl sem ver ríki sitt af dugnaði ef óboðna gesti ber að garði. Stundum má sjá smyrla á flugi. Staldraðu að lokum við í fjöru, þar er iðandi líf og seiðandi brim.

Í eyjunum Lundey á Skjálfanda og Mánáreyjum undan strönd Tjörness eru stórar lundabyggðir. Einnig er töluvert um lunda á utanverðu Tjörnesi þar sem auðvelt er að komast í návígi..

Til er bæklingur um fugla á strandsvæðum Þingeyjarsýslu. Þetta er handhægur einblöðungur sem þó veitir miklar upplýsingar. Í honum eru kortlagðir helstu fuglaskoðunarstaðir og einnig er listi yfir alla fugla sem þekkjast á svæðinu og hvenær má vænta þess að sjá þá. Á nokkrum þessara staða hefur upplýsingaskiltum verið komið upp.

Áhugaverðir tenglar

Fuglavefurinn
www.fuglar.is
Icelandic birding – Íslenskir fuglar