Ganga

Á síðustu árum hafa gamlar gönguleiðir verið kortlagðar og sumar merktar. Nýlega eru komin á markað sjö ódýr göngu- og reiðleiðakort fyrir alla sýsluna. Kortin bera titilinn Útivist og afþreying og á þeim eru vel á annað hundrað leiðir og leiðarlýsingar. Um þessar leiðir fer nú fólk í leit að hollri útivist, hreyfingu og andlegri næringu. Sumar leiðirnar eru stuttar, aðrar lengri og erfiðari. Landslagið er mismunandi og náttúran síbreytileg. Möguleikarnir eru óendanlega margir.

Ferðir út í Flateyjardal og Fjörður eru óviðjafnanlegar. Það sama má segja um gönguferðir í Mývatnssveit. Útivera í Jökulsárgljúfrum er öllum áskorun og Melrakkaslétta, Þistilfjörður og Langanes hafa upp á fleira að bjóða en flesta grunar.
Göngukortin eru kjörin til þess að skipuleggja ferðina og að sjálfsögðu til að hafa með í ferðalagið. Þau eru fáanleg hjá ferðaþjónustuaðilum á Norðausturlandi og einnig hjá upplýsingamiðstöðvum í Mývatnssveit, Húsavík, Akureyri og Egilsstöðum