Golf

Golf hefur átt sívaxandi vinsældum að fagna meðal almennings. Með þeirri íþrótt má sameina skemmtilegt sport, útivist og hreyfingu. Á svæðinu eru fjórir níu holu vellir.

Í brekkunum skammt sunnan Húsavíkur er Katlavöllur.  Umhverfi vallarins er einkar notalegt, um hann liðast Þorvaldsstaðará og fallegt útsýni er yfir Skjálfandaflóa.  Við Katlavöll er ágæt aðstaða, þar er æfingaflöt og þjónustuskáli með veitingum, kylfu- og kerruleigu.  Golfklúbbur Húsavíkur rekur völlinn.
Krossdalsvöllur í Mývatnssveit þykir nokkuð krefjandi og skemmtilegur völlur. Hann er fetar sig upp í brekkurnar ofan við þorpið Reykjahlíð og ekki spillir útsýnið yfir Mývatnssveit ánægjunni af íþróttinni.  Krossdalsvöllur er rekinn af Golfklúbbi Mývatnssveitar.
Í mynni Ásbyrgis, austan megin við tjaldstæðið og í túnfæti hinnar glæsilegu Gljúfrastofu, er 9 holu golfvöllur sem rekinn er af Golfklúbbinum Gljúfra. Ekki þarf að hafa mörg orð um hve tignarleg umgjörð þessa vallar er.

Lundsvöllur í Fnjóskadal er 9 holu völlur sem vígður var árið 2009 og er nýjasti golfvöllurinn á svæðinu. Lundur er landnámsjörð rétt sunnan við Vaglaskóg. Hér er mesti skógur norðurlands en sunnan Vaglaskógar tekur Lundsskógur við og þar er mikil frístundabyggð. Völlurinn er staðsettur á flötum milli bakka Fnjóskár og skógi vaxinna hlíða. Við völlinn er rúmgóður golfskáli með snyrtingar og veitingasölu. Þar geta gestir sest niður og notið veitinga í fögru umhverfi.
Við Lauga í Reykjadal er verið að byggja upp 6 holu völl.
Á Kópaskeri er púttvöllur og ef þú vilt grípa í kylfurnar um hávetur geturðu brugðið þér í Hvalasafnið á Húsavík, en þar innan dyra er að vetrinum 18 holu minigolf völlur.