Hestamennska

Hestamennska er vinsæl íþrótt og holl og skemmtileg útivist. Hestaeign er töluverð meðal þéttbýlisbúa í Þingeyjarsýslu og til sveita er hún almenn. Víða eru hestaleigur, m.a. á Húsavík, í Mývatnssveit og í Ásbyrgi, þar sem í boði eru útreiðartúrar og tilvalið er fyrir ferðamenn að bregða sér á hestbak. Hvernig sem viðrar má hafa ánægju af útivist á hinum smávaxna en harðgerða íslenska hesti sem alla heillar. Í boði eru ferðir sem taka allt frá klukkutíma upp í marga daga.
Fyrir hestamenn sem koma á eigin vegum má benda á kortaröðina Útivist og afþreying, en þar eru fjölmargar reiðleiðir kortlagðar og fylgir þeim leiðarlýsing. Reiðleiðirnar liggja meðfram ströndum, til fjalla og um fornar söguslóðir. Útivist á hestbaki í ósnortinni náttúrunni er heillandi og eftirminnileg leið til þess að kynnast landinu okkar.
Við hvetjum þig til að kynna þér það sem í boði er, hvort sem þú kemur gagngert til þess að fara í reiðtúr eða langar til að bregða þér á bak dagstund.