Hvalaskoðun

Fyrstu skipulögðu hvalaskoðunarferðir á Íslandi hófust frá Húsavík 1995 og ár frá ári fjölgar því fólki sem leitar til hafs til þess að sjá þessi tignarlegu dýr koma upp úr djúpinu til að anda. Skjálfandaflói virðist búa yfir góðum aðstæðum fyrir þessa risa undirdjúpanna og því má í flóanum finna fjölda hvala af ýmsum tegundum, mest þó hrefnu, hnúfubak og höfrunga.
Auk kjöraðstæðna frá náttúrunnar hendi hefur hér skapast löng og mikil reynsla og gríðarleg þekking hefur safnast saman á Húsavík. Hvalaskoðunarbátarnir hafa frá fyrstu tíð siglt margar ferðir á dag og nú er boðið upp á hvalaskoðun frá apríl og út september svo framarlega sem veður leyfir.

Frá árinu 1998 hefur starfsfólk frá Hvalasafninu á Húsavík daglega farið út með bátunum til þess að rannsaka og skrá gögn um hegðun hvala í Skjálfandaflóa. Að þessum rannsóknum hafa einnig komið sérfræðingar og námsfólk hvaðanæva að úr heiminum. Árið 2007 var svo komið á fót hvalarannsóknarsetri á Húsavík undir merkjum Háskóla Íslands í nánu samstarfi við Náttúrustofu Norðurland og Þekkingarsetur Þingeyinga.
Það er því óhætt að fullyrða að Húsavík sé miðstöð hvalaskoðunar og um leið höfuðsetur rannsókna og fræða um þessar heillandi skepnur.

Áhugaverðir tenglar

Hvalasafnið á Húsavík
Hvalaferðir – Gentle Giants
Norðursigling hvalaskoðun