Náttúruböð og sundlaugar

Eftir krefjandi gönguferðir eða aðra hressandi útivist í þingeyskri náttúru er ekkert betra en að slaka á í heitu vatni og finna hvernig þreytan líður burt úr líkamanum. Sundlaugar með heitu vatni úr iðrum jarðar eru í nær öllum þéttbýliskjörnum og einnig víða til sveita.  Stærstu laugarnar bjóða upp á margar sundbrautir, misheita potta, nuddpotta og gufubað. Minni laugarnar hafa einnig sína töfra og endurnæra sál og líkama.

Ítarlegar rannsóknir á jarðhitaauðlindum á Norðausturlandi sýna að hér er mjög fjölbreytt vatn og nokkur svæði með vatn sem fellur undir heilsuvatnsflokkun. Hér er einnig mikið af góðu ferskvatni. Salt vatn af Húsavíkurhöfða hefur til margra ára verið nýtt til heilsubaða með ágætum árangri fyrir fólk með húðsjúkdóma og er nú dælt í Sundlaug Húsavíkur.

Jarðböðin við Mývatn má enginn láta fram hjá sér fara. Þar baða menn sig úti í náttúrunni undir berum himni, en baðmenning á sér aldalanga hefð í Mývatnssveit. Upplagt er að slaka á í gufu, heitum potti eða liggja í lóninu sjálfu sem er viðurkennd heilsulind.
www.jardbodin.is