Ströndin

Ströndin heillar og laðar til sín alla þá sem leita náttúrufegurðar og gróandi mannlífs. Niður brimsins lætur eins og söngur í eyrum og blátt hafið teygir sig til norðurs svo langt sem séð verður.

Sums staðar ganga þverhnípt fjöll í sjó fram, annars staðar kyssir ólgandi aldan flatan dökkan sand, stórgrýti eða þangi vaxnar klappir. Austan Skjálfandafljóts er móberg alls ráðandi bergtegund og frá jökulskeiðum ísaldar eru merkileg steingervingalög á Tjörnesi. Landslagið er mótað með margbreytilegum hætti og náttúran er í senn fögur, aðlaðandi og hrjóstrug.

Strandmenning

Á ströndum Þingeyjarsýslu hefur mannlíf dafnað í meira en þúsund ár og mismunandi aðstæður hafa mótað kynslóðirnar öld eftir öld. Fyrr á öldum höfðu menn viðurværi sitt af öllu því sem nærumhverfið bauð upp á. Bændur við ströndina áttu sína báta og þar sem aðstæður þóttu bestar byggðust upp verstöðvar. Til urðu blómleg kauptún og kaupstaður þar sem hafnirnar hafa löngum gegnt lykilhlutverki með iðandi mannlífi og athafnasemi. Annars staðar finnast merki um byggð sem áður var blómleg en lagðist svo af vegna breyttra aðstæðna.

Allt frá landnámi höfum við reitt okkur á hafið sem kjölfestu í lífsviðurværinu. Stundum var lífsbaráttan hörð og menn lærðu að nýta allt sjórinn gaf. Hér eru gjöful fiskimið og þangað sækja sjómenn á stórum sem smáum bátum björg í bú. Rekaviður var nýttur sem byggingarefni og er enn. Bjargfuglinn var veiddur og sigið eftir eggjum. Fjörur voru nýttar til beitar, og þangi og fjörugróðri var eining safnað til matar- og lyfjagerðar eða til að þurrka og brenna til kyndingar. Til eru sögur um að hvalreki hafi bjargað heilum byggðarlögum frá hungurdauða í harðæri, og enn í dag er orðið notað um óvænt stórhapp.

Hafið fleytti forfeðrum okkar að ströndum Íslands og hefur alltaf verið mikilvæg samgönguleið. Það sem íbúarnir aðhafast, skapa og framkvæma köllum við menningu og sambúðin við hafið hefur með ríkulegum hætti sett mark sitt á hana hér. Strandmenning Þingeyinga er fjölþætt, auðug og lifandi. Hún hefur sterk tengsl við fortíðina en á sama tíma þróast hún með breyttum lífsháttum og fólk horfir björtum augum til framtíðar.

Heillandi ævintýraheimur

Norðausturströndin bíður upp á mikla möguleika til útivistar og hún er sannkallaður ævintýraheimur fyrir börn og fullorðna. Hægt er að sigla og skoða land af sjó og allt það sem hafið hefur upp á að bjóða. Í boði eru veiðiferðir, skoðunarferðir um náttúruna og afslappandi gönguferðir í fjöru sem býr yfir mörgum leyndardómum. Lífríkið er einstaklega fjölbreytt í fjörunni. Þar þrífast óteljandi smádýr sem laða að fjölmarga fugla, og stundum má koma auga á seli og jafnvel hvali. Í mörgum fjörum má finna rekavið, marglitar skeljar og ýmsar gersemar sem vekja áhuga.

Vitar

Margt er gert til þess að tryggja öryggi þeirra sem um ströndina fara og þeirra sem um sjó sigla. Öld er liðin síðan fyrst var byrjað að lýsa farmönnum og ferðalöngum með leiftrandi ljósgeislum vitanna sem standa með ströndinni eins og risavaxnir gæslumenn. Vestan frá Gjögurtá austur á Font og Bakkafjörð standa þessar 14 vinalegu og geislandi steinsúlur og blikka þá sem leið eiga um yfirráðasvæði þeirra og vara við hættum. Þeir lýsa á skerjum, eyjum, töngum, bryggjum og eyrum. Þeir standa vörð um þingeyska strönd, varpa ljósi á menningu fólksins sem þar býr og vísa ferðafólki í mörgum tilvikum á áhugaverða staði.