Veiði

Þingeyjarsýsla er paradís fyrir veiðimenn, hvort sem um er að ræða skotveiði eða stangveiði, á sjó eða landi. Veiðar eru rótgróinn og eðlilegur hluti af tilverunni hér og margir heimamenn njóta þess að geta sótt sér fisk í soðið eða rjúpu á jólaborðið, að geta gripið gæsina þegar hún gefst. Hingað koma einnig veiðimenn víðs vegar utan úr heimi ár eftir ár því upplifunin er einstök.

Á Norðausturlandi er hæsta hlutfall stórlaxa í íslenskum laxveiðiám og í Þingeyjarsýslu eru margar góðar og eftirsóttar lax- og silungsveiðiár. Frægust þeirra er eflaust Laxá í Aðaldal. Auk óviðjafnanlegrar náttúrufegurðar er áin gjöful, mikið um stóran lax og urriðasvæði hennar þykir með því besta í heimi.  Aðrar þekktar laxveiðiár í innsveitum Þingeyjarsýslu eru m.a. Fnjóská, Skjálfandafljót, Reykjadalsá og Mýrarkvísl.  Litlá í Kelduhverfi er einstök fyrir volgar lindir sem í hana renna og skapa góð skilyrði fyrir fiskinn. Í Þistilfjörð renna margar  vinsælar laxveiðiár. Yst eru Ormarsá og Deildará á austanverðri Melrakkasléttunni og innar koma þær svo í röðum; Svalbarðsá, Sandá, Hölkná og Hafralónsá sem Kverká rennur í. Enn er ótalinn fjöldi góðra veiðiáa sem mörgum þykja ekki síður skemmtilegar, t.d. Svartá í Bárðardal, Brunná í Öxarfirði, Lónsá á Langanesi, Miðfjarðará í Bakkafirði og þannig mætti áfram telja.

Það þarf ekki að vera þaulvanur veiðimaður til að njóta þessarar sérstöku náttúruupplifunar. Það er oft grunnt á veiðieðlinu í okkur og stundum ekki síður hjá börnunum. Í sýslunni eru fjölmörg vötn, í byggð, inni á milli hárra fjalla og uppi á heiðum, þar sem veiðivon er eins og best verður á kosið: spriklandi bleikja og stinnur urriði. Slíkir staðir eru paradís sem öll fjölskyldan fær notið. Fátt er unaðslegra en að njóta útivistar í litríkri norðlenskri náttúru, kasta fyrir fisk og endurnærast lífsorku og bjartsýni á lífið og tilveruna. Ef sjóveiðin heillar meira má dorga víðast hvar við ströndina og einnig er hægt að komast í sjóstangveiði í flestum sjávarþorpum á svæðinu.