Vatnajökulsþjóðgarður

Á hverju sumri er boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir gesti Vatnajökulsþjóðgarðs. Áhersla er á lifandi leiðsögn og persónulega upplifun gesta af náttúru og umhverfi þjóðgarðsins.

Sumardagskrá í Ásbyrgi og Hljóðaklettum er svohljóðandi og nánari upplýsingar má fá á vefsíðu Vatnajökulsþjóðgarðs

Barnastund í Ásbyrgi kl. 11:00 – 11.45
Á hverjum degi geta hressir krakkar á aldrinum 6-12 ára rannsakað náttúruna með landverði og farið í skemmtilega leiki.
Hittumst kát við stóra snyrtihúsið á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi.

Gönguferð um griðastaðinn Ásbyrgi kl. 14:00
S
tutt og létt ganga um innsta hluta Ásbyrgis, ~ 1 klst. Landvörður mun segja ykkur frá Ásbyrgi, myndun þess og hvernig Ásbyrgi hefur orðið griðastaður svo margra. Gaman er að rölta um og rannsaka lífríkið, ganga um skóginn eða heilsa upp á álfana. Leiðsögnin er á íslensku og ensku.
Lagt er af stað frá bílastæðinu inni í Ásbyrgi. Leiðsögn á íslensku og ensku.

Kvöldrölt í Ásbyrgi kl. 20:30
Stutt og létt kvöldganga í Ásbyrgi, 1-1,5 klst.
Lagt er af stað frá stóra snyrtihúsinu á tjaldsvæðinu. Hver ganga er auglýst sérstaklega í Gljúfrastofu og í stóra snyrtihúsinu á tjaldsvæðinu. Íslensk leiðsögn. Á hverju sunnudagskvöldi er áhersla lögð á umfjöllun um fálkann, í samvinnu við Fálkasetur Íslands, www.falkasetur.is.

Gönguferð um Hljóðakletta kl. 14:00.
Genginn er hringur um Hljóðakletta og komið við hjá Tröllinu, í Kirkjunni og víðar. Á leiðinni mun landvörður segja frá myndun Hljóðakletta og skoða með ykkur ótal kynjamyndir í klettum, stuðla, kubbaberg og býkúpuveðrun. Að mestu létt rölt, en hluti leiðarinnar er þó seinfarinn. Farið er rólega yfir. 1,5 klst.
Lagt er af stað frá bílastæðinu við Hljóðakletta. Íslensk leiðsögn.