Dimmuborgir

Umhverfi Mývatns er sannkallaður náttúru- og ævintýraheimur. Einn af fjölmörgum stöðum við vatnið sem enginn má láta fram hjá sér fara er Dimmuborgir, hraunborgir austan vatnsins. Ótal kynjamyndir einkenna svæðið, gataklettar, hvelfingar og hellar.

Jarðfræði

Mývatn er á mótum Ameríku og Evrasíu jarðskorpuflekanna sem rekur í sundur og þar er því mikil eldvirkni. Dimmuborgir mynduðust við mjög sérstakar aðstæður í mikilfenglegum eldsumbrotum sem áttu sér stað fyrir 2300 árum þegar hraun vall upp úr 12 km langri sprungu suður af Hverfjalli og rann niður Laxárdal og um Aðaldal alla leið til sjávar í Skjálfanda.
Þetta hraun er kallað Laxárhraun yngra og mótaði það mikið af þeirri náttúru sem gefur svæðinu sinn einstaka svip; Lúdentarborgir, Þrengslaborgir, gervigígana við Skútustaði og Dimmuborgir.Talið er að á meðan gosinu stóð hafi einhver fyrirstaða orðið þess valdandi að hrauntjörn myndaðist. Hraunið í tjörninni var byrjað að storkna þegar fyrirstaðan gaf sig og storknaðir hraundrangar stóðu eftir þegar hraunið sem enn var fljótandi fékk framrás. Þessar sérstöku aðstæður skildu eftir sig jarðfræðilegar kynjamyndir sem hvergi annars staðar hafa fundist á þurru landi.

Fjölbreyttar gönguleiðir

Nokkrar vel merktar gönguleiðir eru í Dimmuborgum og eru þær misjafnlega langar og erfiðar þannig að flestir ættu að finna leið við hæfi. Hægt er ganga Litla hring sem tekur aðeins um 10-15 mínútur eða Stóra hring sem tekur um hálftíma. Krókastígurinn er fjölbreytt gönguleið en ögn erfiðari og tekur um 40 mínútur.
Þekktasti staðurinn í Dimmuborgum er há hvelfing innar í hrauninu sem opin er í báða enda kallast Kirkjan. Kirkjuhringurinn er gönguleið sem tekur um klukkutíma.
Á undanförnum árum hefur sandfok af völdum jarðvegseyðingar austan Mývatns ógnað gróðri og landslagi í Dimmuborgum. Hafa menn verið uggandi um þær afleiðingar sem þetta myndi hafa á þetta einstæða náttúrfyrirbæri ef ekkert yrði að gert og er unnið að uppgræðslu til að stöðva sandfokið. Glögglega má sjá þessa aðsteðjandi hættu og upprgæðslustarfið þegar genginn er Mellandahringurinn sem er um hálftíma aukahringur.

Aðgengi að Dimmuborgum

Vegur liggur frá Geiteyjarströnd austan Mývatns að bílastæðinu við Dimmuborgir. Borgirnar erum meðal þekktustu og fjölsóttustu ferðamannastaða á landinu. Þrátt fyrir það hefur til þessa ekki verið nein aðstaða fyrir ferðafólk. Vorið 2009 verður bót á þessu þegar loks er hafist er handa við byggingu Dimmuborgarstofu. Með tilkomu þjónustumiðstöðvarinnar gerbreytist aðstað fyrir ferðamenn og þjónustuaðila sem þeim sinna.Það er yndislegt að rölta um Dimmuborgir á fögrum sumardegi og njóta þessarar einstæðu náttúru. Það er hins vegar töfrum líkast að heimsækja Dimmuborgir um aðventuna. Borgirnar taka á sig aðra mynd í vetrarklæðunum og á þeim árstíma fara Jólasveinarnir í Dimmuborgum á stjá. Það er ógleymanleg upplifun fyrir börn á öllum aldri að heimsækja þá í sínu náttúrulega umhverfi.

Áhugaverðir tenglar

Mývatnsstofa
Umhverfisstofnun