Flateyjardalur og Víkur

Skaginn nafnlausi

Skaginn milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa býr yfir stórbrotinni náttúru sem er ægifögur og ósnortin. Þarna eru fjölmargar þekktar náttúruperlur eins og Fjörður, Flateyjardalur og Náttfaravíkur, en hverju sem það sætir hefur þessi tignarlegi skagi ekkert nafn. Fram hafa komið tillögur um nöfn sem ekki hafa náð að festast. Vigfús Björnsson kýs að kalla þetta Huldulandið í samnefndri bók sinni um svæðið og lýsir það vel þeirri dulúð sem umlykur skagann.

Flateyjardalur

Flateyjardalur er ríflega 30 km langur og sker endilangan skagann milli Eyjafjarðar og Skjálfanda. Um vetur er þar mjög snjóþungt og lagðist síðasta byggð þar af árið 1954. Að sumarlagi skartar dalurinn hins vegar sínu fegursta og nýtur sívaxandi vinsælda sem einstakt útivistarsvæði. Í Flateyjardal má komast á jeppum og stærri bílum og þar má finna margar skemmtilegar og krefjandi gönguleiðir.

Flatey

Undan ströndinni við mynni dalsins er Flatey sem var í byggð frá 12. öld til ársins 1967. Þar standa enn fjölmörg hús sem mörg hver hafa verið gerð upp á síðustu árum. Í Flatey er mjög skemmtilegt að koma og á sumrin eru ferðir í boði þangað frá Húsavík.

Náttfaravíkur

Við vestanverðan Skjálfanda liggja Náttfaravíkur undir hinum tignarlegu Víknafjöllum. Í Landnámu segir að þar hafi Náttfari sest að, sá er kom með Garðari Svavarssyni til Íslands fjórum árum fyrir landnám Ingólfs. Í hugum flestra Þingeyinga er hann með réttu fyrsti landnámsmaðurinn. Naustavík er allstór og grösug og hentaði best til lendingar. Hún fór í eyði 1941, en steinhúsi sem þar stendur er enn haldið við.