Goðafoss

Goðafoss er í Skjálfandafljóti skammt frá bænum Fosshóli í mynni Bárðardals þar sem dalurinn mætir Ljósavatnsskarði og Kaldakinn. Goðafoss er einn þekktasti foss landsins og kemur þar til fegurð hans, aðgengi og söguleg tenging.

Náttúruperla í alfaraleið

Goðafoss er meðal stærstu fossa á Íslandi og þykir jafnframt einn sá fallegasti. Hann er formfagur og einkar myndrænn. Skjálfandafljót rennur um hraun sem talið er hafa komið úr Trölladyngju við fyrir 7000 árum og runnið um 100 km leið til sjávar í Skjálfandaflóa. Í aldanna rás hefur fljótið grafið sig upp eftir hrauninu og sorfið um þriggja km löng gljúfur sem eru um 100 m breið rétt neðan við fossinn. Klettar á skeifulaga fossbrúninni greina Goðafoss í tvo meginfossa sem eru 9 og 17 metra háir og steypast fram af hraunhellunni skáhalt á móti hvor öðrum. Auk þeirra eru nokkrir smærri fossar eftir vatnsmagni fljótsins. Einn þeirra þrengir sér á milli meginfossanna tveggja og gefur fossinum sinn sterka svip.

Goðafoss er einungis spölkorn frá þjóðvegi 1, vel merktur og ætti varla að fara fram hjá nokkrum sem þarna á leið um. Fyrir þeim sem koma að austan blasir hann við þegar ekið er ofan af Fljótsheiði. Bílastæði er rétt við fossinn vestan megin fljóts og auðvelt er að ganga eftir hraunklöppum á fljótsbakkanum alveg að fossinum. Á gljúfurbakkanum austan við fljótið stendur verslunar- og þjónustumiðstöðin á Fosshóli. Þaðan er stutt gönguleið að fossinum austan megin.

Táknmynd kristnitöku á Íslandi

Goðafoss er nátengdur einhverjum merkasta viðburði Íslandssögunnar, kristnitökunni árið 1000. Á Ljósavatni, skammt frá Goðafossi, bjó Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði. Íslendingabók Ara fróða segir frá því hvernig Þorgeiri var sem lögsögumanni falið það erfiða hlutverk að ná lögsáttum milli heiðinna manna og kristinna. Vel er þekkt sagan af því er hann lagðist undir feld og lét ekki á sér kræla fyrr en daginn eftir. Þá kallar hann menn til lögbergs og segir það stríða gegn almanna hag “ef menn skyldu eigi hafa allir lög ein á landi hér”.

Þorgeir varaði mjög við afleiðingum trúardeilna og vildi miðla málum. Ari segir svo að hann hafi fengið hvora tveggja til að gangast inn á að allir skyldu ein lög hafa þau sem hann réði upp að segja. Hann kvað svo upp dóm sinn og mælt var í lögum að allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka. Komið var til móts við heiðna menn með nokkrum frávikum frá kristnum sið, t.d. að blóta mætti á laun.

Eins og goðatitillin ber með sér var Þorgeir sjálfur heiðinn fram að þessu. Þjóðsagan segir svo frá því er Þorgeir varpaði að heiðnum líkneskjum sínum í fossinn, þá er hann var heim kominn, í táknrænni athöfn því til staðfestingar að hann hefði tekið nýjan sið og þannig hafi fossinn fengið nafn sitt. Þessi frásögn á sér þó hvergi stað í Íslendingasögunum og kemur fyrst fram á prenti í Danmörku á síðari hluta 19. aldar. Jónas frá Hriflu tekur hana svo upp í bók sinni Íslandssaga handa börnum sem út kom 1915.

Ýmsar aðrar skýringar hafa verið gefnar fyrir örnefninu Goðafossi en hvað sem þeim líður hefur þessi frásögn öðlast fastan sess í sagnageymdinni og er mjög lifandi í þjóðarvitundinni.

Þorgeirskirkja

Árið 2000 var á Ljósavatni vígð ný kirkja í tilefni af þúsund ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Var hún nefnd Þorgeirskirkja í minningu Þorgeirs Ljósvetningagoða. Kirkjan er þannig hönnuð að í stað hefðbundinnar altaristöflu er stór gluggi á kórgaflinum þar sem náttúran blasir við í sínum margbreytilegu myndum.