Hálendið

Síðustu áratugi hafa hálendisferðir notið ört vaxandi vinsælda. Göngugarpar teyga tært fjallaloftið, aðrir aka vegaslóða á jeppum og háfjallatrukkum. Margir sameina bílferðir um hálendið og gönguferðir og sumir hjóla jafnvel yfir hálendið. Þingeyska hálendið býr yfir stórbrotinni náttúru sem býður öllum ferðamönnum upp á ótal möguleika. Skipta mætti hálendinu í tvo flokka; nærhálendi og fjarhálendi.

Óbyggðir innan seilingar

Með nærhálendi er átt við það hálendi sem skemmst er frá byggð. Hvarvetna á Norðausturlandi eru fjöll sem gaman er að klífa. Minna má á hálendið vestan Skjálfanda, jeppaferðir út í Flateyjardal og gönguferðir þaðan í Fjörður. Gönguleiðir um Kinnarfjöll, Þeistareykjasvæðið, fjöllin í Mývatnssveit og hálendið á Langanesi austanverðu. Landslagið er margbreytilegt og útsýnið fagurt. Upplifun ferðamannsins er eins og vítamínssprauta í æð.

Öræfin geyma ótal gersemar

Fjarhálendi er hálendið norðan Vatnajökuls þar sem er að finna fjölda þekktra staða sem heilla þá sem óbyggðum unna og ævintýraferðum; hið raunverulega hálendi Íslands eins og margir myndu segja. Hver kannast ekki við Gæsavötn, Kiðagil, Trölladyngju, Þríhyrning, Dyngjufjöll, Öskju, Ódáðahraun, Herðubreið, Herðubreiðarlindir og Mývatnsöræfi, svo aðeins séu nefnd nokkur þekktustu kennileiti þingeyska hálendisins? Ferðamöguleikar eru óþrjótandi um þetta fagra en hrjóstruga, víðfeðma og seyðandi land. Má þar nefna Gæsavatnaleið, Dyngjufjallaleið í Mývatnssveit og leiðangur meðfram Skjálfandafljóti að austan. Einnig ferð að Herðubreið og í Herðubreiðarlindir og þaðan í Öskju og loks ferð inn í Hvannalindir og í Kverkfjöll sem njóta sívaxandi vinsælda meðal ferðamanna vegna stórbrotinnar náttúru.

Á slóðum biskupa og útilegumanna

Gæsavötn eru tvö grunn vötn austan Tungnafellsjökuls. Gróður er nokkur umhverfis vötnin og skammt austan þeirra fundust kofarústir árið 1932 sem ef til vill eru vitnisburður um útilegumenn eða bara fornt sæluhús. Um þessar slóðir liggur áður nefnd Gæsavatnaleið af Sprengisandsleið rétt norðan Tómasarhaga.
Um Sprengisand var forn leið milli Suðurlands og Norðurlands og lá leið Þingeyinga um Kiðagil af sandinum og þar var áningarstaður þeirra. Gil þetta gerði Grímur Thomsen ódauðlegt í kvæði sínu Á Sprengisandi: „Vænsta klárinn vildi ég gefa til / að vera kominn ofan í Kiðagil.”
Trölladyngja er 1460 metra há gosdyngja en norður af henni er Þríhyrningur sem er 1044 metra móbergskambur. Frá Kiðagili austur yfir Ódáðahraun og að Ferjufjalli við Jökulsá liggur einnig hluti af hinni gömlu Biskupaleið.

Askja-Herðubreið-Kverkfjöll

Dyngjufjöll eru norðan Dyngjujökuls sem gengur norður úr Vatnajökli, nær ferhyrndur gróðursnauður fjallaklasi sem umlykur Öskju sem er um 50 km2 sigdæld. Gígurinn Víti varð til í miklu sprengigosi árið 1875. Í suðausturhorninu er ketilsig og í því er Öskjuvatn, dýpsta vatn landsins, 220 metrar. Vatnið í Víti er heitt og þar er vinsælt að fara í bað.
Ódáðahraun er mesta hraunbreiða Íslands, eiginlega samfelld eyðimörk frá Vatnajökli norður að fjöllunum á Mývatnsöræfum. Þar er Herðubreið, 1682 metra hátt stapafjall, drottning íslenskra fjalla og þjóðarfjall Íslendinga. Um fimm kílómetrum norðan fjallsins eru Herðubreiðarlindir, einstaklega fögur gróðurvin þar sem ótal lindir koma undan hraunrönd og sameinast í Lindaá. Gróður er þar þroskamikill og fagur en mest ber á ætihvönn, víðitegundum og litskrúðugri eyrarrós. Herðubreið og nágrenni var friðlýst árið 1974.

Kverkfjöll eru mikill fjallabálkur í norðurjaðri Vatnajökuls. Á svæðinu skiptast á jökulbreiður og hverasvæði og er Hveradalur eitt mesta háhitasvæði landsins. Á sumrin eru reglulegar ferðir frá Akureyri, Húsavík og Mývatnssveit inn í Kverkfjöll. Umhverfisstofnun og Ferðafélag Akureyrar reka skála í Herðubreiðarlindum og í Drekagili við Öskju. Þá rekur Ferðafélag Húsavíkur ásamt Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs skála í Kverkfjöllum. Auk þess reka ferðafélögin fleiri skála sem nýttir eru einkum af gönguferðafólki