Húsavík

Blómlegt samfélag við Skjálfanda

Húsavík er stærsti bærinn í Þingeyjarsýslu, blómlegt samfélag við innanverðan Skjálfanda að austan. Húsavík er hreinlegur og snyrtilegur bær sem nýtur sívaxandi vinsælda meðal innlendra sem erlendra ferðamanna. Vinsældirnar stafa m.a. af fallegu og vinalegu umhverfi, nálægðinni við náttúruperlur sýslunnar og fjölbreyttri afþreyingu þar sem hvalaskoðunarferðir út á Skjálfandaflóa skipa stærstan sess.

Elsta byggða ból landsins

Talið er að Húsavík sé eitt elsta örnefni á Íslandi. Í Landnámabók (Sturlubók) segir frá Garðari Svavarssyni, sænskum víkingi, sem sigldi til landsins og uppgötvaði að það var eyland er hann sigldi umhverfis það. Hann var um veturinn norður í Húsavík á Skjálfanda og gerði þar hús. Þetta var 870, fjórum árum áður en Ingólfur Arnarson settist að í Reykjavík og því má segja að á Húsavík sé elsta byggða ból á Íslandi. Þéttbýlismyndun hófst hér á seinni hluta 19. aldar og í kjölfar hennar var Kaupfélag Þingeyinga stofnað 1882, fyrst kaupfélaga á Íslandi. Árið 1912 var kauptúnið gert að sérstökum hreppi og 1950 hlaut Húsavík kaupstaðaréttindi.

Húsavíkurkirkja

Húsavík varð snemma kirkjustaður og er kirkja talin hafa verið reist þegar á 12. öld. Húsavíkurkirkja sem nú stendur var teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt. Hún var vígð sumarið 1907 og rúmaði þá flesta þorpsbúa. Kirkjan, sem stendur miðsvæðis við aðalgötuna, er virðulegt tákn fyrir bæinn og af mörgum talin ein fallegasta kirkja landsins

Auðlindir og fjölbreytni

Húsavík er vel í sveit sett, og hefur löngum notið fjölbreytni í atvinnulífi. Lífríki er mikið í flóanum, hafnaraðstaða góð og sveitunum í kring er blómlegur landbúnaður. Í nálægum sveitum er einnig víða að finna heitt vatn og gufu og skapar óbeisluð orka í iðrum jarðar Húsvíkingum og öðrum Þingeyingum mikla möguleika í framtíðinni. Frá Hveravöllum hefur vatni verið dælt til hitaveitu á Húsavík síðan 1970. Árið 2000 var svo tekin í notkun orkustöð þar sem yfirhiti á vatni úr Reykjahverfi er notaður til rafmagnsframleiðslu.
Sjávarútvegur, úrvinnsla landbúnaðarafurða, verslun og viðskipti hafa löngum af vegið þyngst í atvinnulífi Húsavíkur en á síðustu árum hefur ferðaþjónusta eflst mjög.

Hvalaskoðun og ferðaþjónusta

Lengi vel komu ferðamenn einkum til Húsavíkur vegna nálægðar við náttúruperlur sýslunnar. Árið 1995 hófust héðan fyrstu skipulögðu hvalaskoðunarferðir á Íslandi og á skömmum tíma varð Húsavík miðstöð hvalaskoðunar á Íslandi og vinsæll áfangastaður. Hjartað slær við höfnina en á hafnarsvæðinu er meðal annars að finna merkilegt hvalasafn.

Menningarmiðstöð Þingeyinga Safnahús Þingeyinga hefur aðsetur í Safnahúsinu sem stendur skammt upp frá kirkjunni. Hún er flaggskip safnamenningar Þingeyinga og þar er að finna byggðasafn, héraðsskjalasafn, náttúrugripasafn, ljósmynda- og filmusafn og glæsilegt sjóminjasafn. Safnahúsið hýsir einnig Bókasafn Suður-Þingeyinga.
Á Húsavík er að finna flest það sem ferðamenn sækjast eftir: hótel, gistiheimili, verslanir, veitingastaði, tjaldsvæði, skrúðgarð, sundlaug, golfvöll og fjölda skemmtilegra gönguleiða. Vinsæl gönguleið er t.d. hringinn í kringum Botnsvatn sem er skammt fyrir ofan bæinn og þar er líka veiðivon. Á Húsavíkurfjalli er útsýnisskífa og fagurt útsýni. Má á góðviðrisdögum sjá þaðan allt suður á Vatnajökul. Húsavíkurstofa, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, er staðsett í miðbænum.