Jökulsárgljúfur í Vatnajökulsþjóðgarði

Mótunarkraftur frá jökli til sjávar

Í mörg þúsund ár hefur Jökulsá á Fjöllum, eitt mesta fljót landsins og önnur lengsta áin, streymt undan Vatnajökli og fallið um 200 kílómetra leið til sjávar norður í Öxarfjörð. Víða hefur áin grafið sig niður í bergið sem hún rennur um og vestan Hólsfjalla fellur hún af háum stalli í miklum fossi, Dettifossi, niður í mikilfengleg gljúfur sem ná alla leið niður að Jökulsárbrú á þjóðvegi 85. Þau eru kennd við ána, heita Jökulsárgljúfur. Gljúfrin eru um 25 kílómetrar á lengd, hálfur kílómetri á breidd og víða um eða yfir 100 metrar á dýpt. Er efri hluti þeirra, sem nær frá Dettifossi að Syðra-Þórunnarfjalli, svipmestur og dýpstur.

Stórkostlegt landslag gljúfranna

Á síðustu öld fór þjóðin í auknum mæli að skynja fegurð óbyggða, hálendis og fjalla, jafnvel þótt nakin og hrjóstrug væru. Náttúran öðlaðist nýtt gildi umfram það að vera nýtilegt til búskapar og svæði sem þóttu standa öðrum framar vegna sérstæðrar náttúru voru friðuð. Eitt þessara svæða er Jökulsárgljúfur sem voru gerð að þjóðgarði árið 1973. Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stækkaður árið 1978 með því að Ásbyrgi var tengt honum og árið 2008 varð hann svo hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Flatarmál þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum er um 120 km2 og til hans heyra öll gljúfrin vestan Jökulsár, en helstu náttúruperlur hans eru Dettifoss, Hafragilsfoss, Vesturdalur, Hljóðaklettar, Hólmatungur og Ásbyrgi. Eru öll þessi náttúrufyrirbæri, gljúfur, gil, klappir og byrgi, fyrst og fremst mótuð af eldvirkni og gífurlegum jökulhlaupum í Jökulsá á Fjöllum. Ótalmargt fleira er að skoða í þjóðgarðinum. Minna má á klettadrangana miklu, Karl og Kerlingu, og fossana Selfoss og Réttarfoss í Jökulsá. Í Hólmatungum dafnar fjölbreyttur gróður. Andstæður eru miklar og óteljandi lækir og lindir renna þaðan út í beljandi jökulfljótið.

Fjölmargt að skoða

Þjóðgarðurinn er tilvalið land til útivistar og gönguferða. Til að skoða hann að gagni ættu ferðamenn að gefa sér góðan tíma, helst nokkra daga. Merkt gönguleið liggur gegnum garðinn milli Dettifoss og Ásbyrgis. Ganga þessi tekur næstum tvo daga en líka er hægt að velja um margar styttri leiðir út frá helstu áfangastöðum innan þjóðgarðsins. Á sumrin bjóða landverðir upp á skipulagða dagskrá þar sem gestir geta valið um mismunandi gönguferðir. Árlega er haldið „Jökulsárhlaup” á leiðinni milli Dettifoss og Ásbyrgis. Gefnir hafa verið út bæklingar um gönguferðir og áhugamenn um jarðfræði, gróður og dýralíf geta fundið þar margt áhugavert.

Landverðir starfa í þjóðgarðinum yfir sumarmánuðina ásamt þjóðgarðsvörðum og hafa þeir aðstöðu í Ásbyrgi og Vesturdal. Gestir eru hvattir til að leita upplýsinga og fræðslu hjá starfsfólki þjóðgarðsins. Undir leiðsögn landvarða bjóðast gönguferðir þar sem gestum gefst kostur á að kynnast stórbrotnu landi þjóðgarðsins og fræðast um sögu og náttúru með staðkunnugum. Gengnar eru ólíkar leiðir og ættu allir að geta fundið gönguleið við sitt hæfi.

Hagnýtir tenglar

Vefur Vatnajökulsþjóðgarðs
Jökulsárhlaup