Rauðinúpur

Áberandi kennileiti

Melrakkaslétta geymir margar perlur sem vert er að skoða. Nyrst á vesturströnd sléttunnar er Rauðinúpur, 73 metra hár klettanúpur sem fær nafn sitt og lit af rauðu gjalli. Með flata sléttuna til suðurs og Atlantshafið til norðurs rís Rauðinnúpur með afgerandi úr umhverfi sínu. Hann hefur því mikið verið notaður sem kennileiti af sjó og ofan af honum er mjög víðsýnt.

Eldstöð frá ísöld

Rauðinúpur er eldstöð frá tíma ísaldar og í honum er stór gígskál. Nafn sitt dregur núpurinn af rauðu gjalli sem mjög setur svip sinn á umhverfið, ekki síst í kvöldsólinni sem óvíða er fegurri en nyrst á Melrakkasléttu.

Jón Trausti og súlubyggðin

Við enda núpsins rísa tveir drangar úr sjó næstum til jafns við núpinn. Sá vestari nefnist Sölvanöf en hann var landtengdur með steinbrú allt þar til 1962 er brúin hrundi. Austari drangurinn heitir Karlinn en sumir kalla hann Jón Trausta. Skáldið og rithöfundurinn Jón Trausti, eða Guðmundur Magnússon eins hann hét í raun, ólst upp á Melrakkasléttu. Hann fæddist á Rifi en á unglingsárunum dvaldi hann um tíma í Núpskötlu ásamt móður sinni. Þekktustu sögur hans eru Halla og Heiðarbýlið og ljóð hans Draumalandið er löngu orðið sígilt við lag Sigfúsar Einarssonar.

Leiðin að Rauðanúpi

Til að komast að Rauðanúpi er ekið frá þjóðvegi 85 heim að Núpskötlu og er þaðan gönguleið upp á núpinn. Gengið er eftir marlarkambinum og upp brekkurnar að Rauðanúpsvita. Þaðan liggur leiðin að gígskálinni og sama leið er gengin til baka.
Á svæðinu er mikið og fjölbreytt fuglalíf sem taka þarf tillit til þegar ekið er að bænum. Krían og æðurinn verpa þarna þétt. Svartfugl og lundi eru í björgum núpsins og í Karlinum er nyrsta súlubyggð landsins.