Skálar

Eyðiþorp á Langanesi

Langanesið, sem skagar um 40 km norðaustur úr landinu, er ekki aðeins heillandi náttúruperla með sínu mikla fuglalífi. Nesið geymir líka víða minjar um búsetu fólks og athafnalíf sem sumar hverjar eru stórmerkilegar.
Utarlega á sunnanverðu Langanesi eru Skálar. Enginn sem kemur að Skálum gleymir þeirri ævintýraferð. Hér við ysta úthaf var a fyrri hluta 20. aldar blómlegt sjávarþorp. Nú er útnesið allt komið í eyði og á Skálum standa aðeins minjar um aðra tíð.

Aðgengi og upplýsingar

Vegur var fyrst ruddur í Skála 1960, löngu eftir að allir íbúar voru farnir þaðan. Hann hefur nýlega verið lagfærður og er fær fólksbílum á sumrin. Þaðan er einnig fært út á Font. Unnið hefur verið að því undanfarin ár að merkja gönguleiðir á Langanesi og frá Skálum eru skemmtilegra leiðir. Þar hefur einnig verið komið upp salernisaðstöðu fyrir ferðamenn. Sögu Langnesinga eftir Friðrik G. Olgeisrson er Skálaþorpinu gerð ítarleg skil og er hún helsta heimild þess ágrips sem hér fer að neðan. Á árinu 2008 var unnið að því að safna heimildum um lífið í þorpinu með það að markmiði að setja upp merkingar við minjarnar. Fanney Kristjánsdóttir nemi í Þjóðfélagsfræði við HA tók viðtöl við fyrrum ábúendur Skála. Leitað var víða að myndum frá Skálum og ýmsar ritaðar heimildir kannaðar. Árið 2009 var gefinn út bæklingur um Skála á Langanesi og má nálgast hann á rafrænu formi hér neðst á síðunni.

Útvegsbændur

Jörðin Skálar hefur verið til allt frá landnámstíð og hefur afkoma þar byggst á nytjum bæði af landi og sjó. Við Langanes eru einkar gjöful fiskimið sem Skálabændur hafa nýtt öldum saman en þangað sóttu einnig erlend skip. Frá þeim var róið í land á bátum til viðskipta við bændur á Langanesi. Á síðustu áratugum 19. aldar fóru Færeyingar að falast eftir aðstöðu í landi fyrir báta sína og fengu hana m.a. á Skálum. Árið 1895 fengu 20 Færeyingar tímabundið húsaskjól hjá Skálabónda og aðstöðu til að verka fisk.
Færeyingarnir veiddu síld til beitu en áttu erfitt með að geyma hana. Varð það til þess að upp úr aldamótum fóru útvegsbændur því að byggja íshús. Voru það niðurgrafin torfhús með þykka veggi og þekju sem fyllt voru af snjó og klaka á veturna. Á sumrin seldu þeir svo Færeyingum ísinn og einnig kjöt í skiptum fyrir salt, peninga og ýmsan varning og síðar lifur sem brædd var í lýsi og seld með góðum hagnaði.
Svo virðist sem töluverð útgerð hafi verið frá Skálum í kring um aldamótin 1900 og henni hefur fylgt töluverður mannskapur. Menn komu þangað með báta sína og réru yfir sumarið en héldu til síns heima á veturna.

Verslun og þorpsmyndun

Sumarið 1910 kom að Skálum Þorsteinn nokkur Jónsson og hafði með sér bát, veiðarfæri og þrjá menn. Höfðu þeir húspláss á Skálum og réru sumarlangt. Gekk útgerðin svo vel að hann samdi við Skálabónda um land undir verbúðir og sumarið eftir snéri hann aftur með byggingarefni, fleiri báta og meiri mannskap. Útgerð Þorsteins efldist, og umsvif hans drógu fleira fólk til Skála. Þorsteinn fékk hann því framgengt að Skálar urðu löggiltur verslunarstaður 1912 og kom á fót verslun.
Veturinn 1911-1912 höfðu þrjár fjölskyldur vetursetu á Skálum auk ábúenda þar og voru íbúar þá samtals 19. Allan næsta áratug fóru umsvif á Skálum vaxandi, fólki fjölgaði og hús voru byggð. Árið 1920 voru íbúðarhús á Skálum orðin níu og íbúar þar 61. Flestir urðu íbúar með lögheimili á Skálum 117 árið 1924. Á sumrin tvöfaldaðist þessi íbúafjöldi.

Framkvæmdir

Vond lending var það sem helst stóð útgerð frá Skálum fyrir þrifum. Ströndin var bein, mjó ræma fyrir opnu hafi og aðgengi í hana og úr bratt og erfitt. Árið 1923 byggði Jóhann M. Kristjánsson bryggju sem svo var kölluð þótt bátar gætu ekki lagst að henni því hún náði ekki út í sjó. Bryggjan var í sömu hæð og bakkabrúnin en við enda hennar var komið fyrir búnaði til að hífa upp varning upp úr bátunum í fjörunni. Bryggjan auðveldaði þannig löndun og lestun báta en breytti engu um lendinguna.
Sama ár reisti Jóhann hús með frysti- og geymslu-klefum til að frysta beitusíld og geyma. Var þetta annað vélknúna frystihúsið sem byggt var á Íslandi.
Því má bæta við hér að sonur Jóhanns var Magnús Blöndal Jóhannsson, tónskáld og frumkvöðull íslenskrar raftónlistar, og má því segja að Skálar séu vagga íslenskrar raftónlistar.
Árið 1929 varð loks úr að ráðist væri í að bæta lendinguna. Fólst sú framkvæmd í byggingu 60 metra varnargarðs sem ætlað var að skýla lendingunni fyrir briminu. Garðurinn reyndist hins vegar of lítill því í haust og vetrarbrimum barst yfir hann grjót og safnaðist þar fyrir þannig að gamla lendingin varð nánast ónýt.

Hningun

Á fjórða áratugnum gróf verulega undan forsendum til útgerðar frá Skálum. Þá voru vélbátar að taka við af árabátum og þá varð góð hafnaraðstaða mikilvægari en nálægð við miðin. Á Skálum var engin aðstaða var fyrir slíka báta. Slæmar samgöngur hömluðu einnig útgerð frá Skálum en þangað var hvorki akfær vegur né símasamband. Ofan á þetta bættist svo heimskreppa með lækkandi fiskverði og minnkandi fiskgengd.
Útgerðir fóru á hausinn eða gáfust upp og fólki fækkaði jafnt og þétt. Í lok fjórða áratugar var íbúafjöldinn kominn niður í 47 og samanstóð af nokkrum sjómönnum sem sáu sér og sínum farborða með einyrkjaútgerð.

Síðustu árin

Á stríðsárunum færðist aukið líf byggðina á Skálum þegar byggð var ratsjárstöð fyrir ofan þorpið og bandarískt setulið settist að í braggahverfi. Fylgdu þessu nokkrar framkvæmdir og einnig tilbreyting fyrir þorpsbúa, en hermennirnir komu sér m.a. upp bíói.
Áhrif frá stríðinu urðu þó einnig til þess að flýta fyrir endalokum byggðar á Skálum. Tundurduflagirðingar höfðu verið settar upp út af Austfjörðum, en algengt var að dufl slitnuðu upp. Þrjú slík tundurdufl sprungu í fjörunni við Skála á árunum í kringum 1942 og eyðilögðust þrjú hús.
Haustið 1946 fluttust þeir 25 íbúar sem enn bjuggu á Skálum burt. Árið 1948 flutti Lúðvík Jóhannson sonur Skálabónda aftur þangað ásamt sambýliskonu sinni. Þar stunduðu þau búskap þangað til þau fluttu burt árið 1955 og þar með lauk sögu byggðar á Skálum.

Áhugaverðir tenglar

Skálar á Langanesi – bæklingur á pdf formi