Vaglaskógur

Fnjóskadalur er gróðursæll dalur og víða skógi vaxinn, enda merkir orðið fnjóskur þurrt viðarsprek. Um miðbik dalsins, austan Fnjóskár er Vaglaskógur, einn fegursti og stórvaxnasti birkiskógur landsins.

Vinsæll áningarstaður

Vaglaskógur er meðal fjölsóttustu skóga á Íslandi. Árlega koma þúsundir ferðamanna til að njóta dvalar í Vaglaskógi, enda hann kjörinn til útivistar að sumri sem vetri. Í skóginum eru vel skipulögð útivistar- og tjaldsvæði sem eru vel sótt af ferðamönnum. Sumir koma langt að en aðrir sem nær búa eiga jafnvel tjaldhýsi sumarlangt á föstum stæðum í skóginum. Í nágrenni við Vaglaskóg er einnig fjöldi sumarhúsa.
Fjöldi merktra gönguleiða eru um Vaglaskóg og þar er margt að skoða, bæði náttúru og menningarminjar. Áhugafólki um skógrækt má benda á trjásafnið ofan gróðrarstöðvarinnar og Arnþórslund skammt frá Mörk. Skammt frá Arnþórslundi eru fallega hlaðnar tóftir gamalla beitarhúsa frá Vöglum.
Um dalbotninn rennur Fnjóská, sem þykir ein fallegasta veiðiá landsins. Nyrst í skóginum er gömul bogabrú sem byggð var yfir Fnjóská 1908. Hún var fyrsta fyrsta steinbrú sinnar tegundar hér á landi og lengsta steinbogabrú á Norðurlöndum þegar hún var byggð.
Miðsvegar í skóginum er lítil verslun og þjónustumiðstöð, sem opin er yfir sumartímann. Þar má fá allar helstu nauðsynjavörur auk upplýsinga um afþreyingu og þjónustu í nágrenninu. Til móts við verslunina er önnur brú yfir Fnjóská.

Eitt mesta skóglendi landsins

Vaglaskógur er í raun hluti af einu mesta samfellda skóglendi á Íslandi sem nær frá Hálsi við vesturenda Ljósavatnsskarðs suður að Belgsá og fer vaxandi. Þessi skógur ber hins vegar mismunandi nöfn eftir þeim jörðum sem hann liggur á.
Sunnan við Vaglaskóg er Lundsskógur, því næst Þórðarstaðaskógur og syðst eru Belgsár- og Bakkaselsskógar. Lundsskógur er í einkaeign og er þar frístundabyggð en hinir eru í eigu eða umsjón Skógræktar ríkisins.
Norðan við Vaglaskóg er Hálsskógur sem eyddist mikið af beit og skógarhöggi fyrr á öldum, en á Hálsmelum vex nú upp ungskógur. Er þar bæði um að ræða gróðursetningu trjáa og náttúrulegt landnám birkis eftir friðun fyrir beit.

Hátt og beinvaxið Vaglabirki

Hinn eiginlegi Vaglaskógur þekur um 300 hektara, en Vagla- og Hálsskógur eru innan friðunargirðingar sem spannar um 690 hektara. Landssjóður Íslands keypti svæðið 1905 til að friða skóginn og hefur ekkert birkiskóglendi á Íslandi hefur verið hirt jafn markvisst og jafn lengi. Skógarvörður hefur setið að Vöglum allt frá 1909 og hófst þá þegar grisjun skógarins. Þar er nú starfsstöð Skógræktar ríkisins og aðsetur skógarvarðarins á Norðurlandi.
Árangurinn af þessu starfi er vel sýnilegur gestum skógarins í dag. Vaglaskógur er með beinvöxnustu birkiskógum á landinu vaxa birkitrén þar hærra en í flestum öðrum íslenskum skógum. Vaglabirki, sem hefur áberandi ljósan stofn, getur náð vel yfir 10 metra hæð en hæsta birkitré skógarins er um 14 metra hátt.

Nytjaskógur um aldir

Vaglaskógur á að baki sér einna lengsta sögu nytjaskóga á Íslandi. Kolagrafir í Vaglaskógi og Hálsskógi eru minjar um gerð viðarkola úr birki sem fyrr á öldum hafa verið notuð til rauðablásturs, en það er aðferð til að vinna járn úr mýrarrauða. Í Þórðarstaðaskógi hefur einnig fundist stór gjallhaugur sem bendir umfangsmikillar járnvinnslu.

Á Vöglum fer nú fram frærækt og ræktun tilraunaplantna, sala jólatrjáa og hnausplantna. Þar er einnig stunduð úrvinnsla viðar. Birkið er vinsælt hráefni í handverk ýmiskonar og þótti henta einkar vel í eldhúsáhöld þar sem það hvorki flísast né gefur frá sér bragð. Birkið þykir einnig mjög gott brennsluefni í arna og ofna. Birkikurl er gjarnan notað til reykingar á ýmsum matvælum.

Áhugaverðir tenglar

Skógrækt ríkisins