Þingeyskar afurðir

Fjölbreytt þingeyskt handverk

Þingeyingar kappkosta að bjóða ferðamönnum vandaða heimaunna vöru. Handverksmarkaðir eru á mörgum stöðum þar sem handverksfólk býður upp á sniðuga og eigulega muni í blöndu af handverki og list. Auk hefðbundins handverks má finna vefnað, fatasaum, bútasaum, körfugerð og margt fleira. Á hverjum stað er eitthvað sérstakt að finna og því ástæða til að staldra við.

Hollur er heimabitinn

Hollur er heimabitinn segir máltækið og samkvæmt því hafa Þingeyingar lifað. Þeir hafa kappkostað að vera ekki aðeins sjálfum sér nógir heldur einnig aflögufærir í mat og drykk. Þingeyingar búa líka við það lán að hafa mikið framboð af fjölbreyttu gæðahráefni bæði úr sjó og á landi. Því er vart að undra að hér hafi þróast mikil og sterk matargerðarhefð.
Ýmsir réttir hafa mótast í gegnum aldirnar á þingeyskum sveitaheimilum við slíka hylli heimilismanna og gesta að þeir eru nú alþekktir hérlendis og þótt víðar væri leitað. Matargerðarlist og verkþekking hefur þróast frá þingeysku eldhúsi til iðnaðarframleiðslu sem þekkt varð um land allt og víða erlendis fyrir gæði, hollustu og hreinleika.
Að þessu búa Þingeyingar og leggja nú metnað sinn í að viðhalda, þróa áfram og deila með öðrum.

Gæðakjöt og úrvals mjólk

Kjöt af hinum ýmsu tegundum er framleitt og unnið í sýslunni en einkum er þingeyska lambakjötið vinsælt á borðum landsmanna, ekki síst þegar sérstaklega skal vanda til. Hver þekkir ekki Hólsfjallahangikjöt, Fjallalamb og Húsavíkurhangikjöt. Gæðin eru höfð að leiðarljósi, natnin við framleiðslu og verkun er bændum og kjötiðnaðarmönnum í blóð borin.

Þingeyskir mjólkurbændur eru einnig margverðlaunaðir fyrir úrvalsmjólk og hér eiga uppruna sinn ýmsar mjólkurafurðir sem löngu eru orðnar landskunnar, t.d. Húsavíkurjógúrt.

Umhverfisvæn, framsýn og lífræn ræktun

Grænmetisrækt er ekki síður blómleg. Með hjálp jarðhitans hafa þingeyskir garðyrkjubændur af mikilli framsýni og metnaði unnið brautryðjendastarf í ylrækt. Í Reykjahverfi er nú starfrækt myndarleg grænmetis- og blómarækt í einhverjum stærstu gróðurhúsum landsins og í Öxarfirði er stunduð lífræn ræktun og þar má m.a. finna stærsta gulrótaframleiðanda landsins.

Ferskar og einstakar fiskafurðir

Ferskur fiskur berst á land og úr honum er lostæti hafsins framleitt. Á Þórshöfn á Langanesi og Húsavík er öflug landvinnsla og í Mývatni veiðist landsþekktur silungur sem fá má soðinn, steiktan, grafinn og reyktan. Reyktur silungur á heimabökuðu rúgbrauði er gómsætur. Auk þess að nýta villta fiskinn hafa Þingeyingar um langt skeið fært sér í nyt þær kjöraðstæður sem hér eru til að rækta gæðafisk og er fiskeldi stundað á nokkrum stöðum.

Njóttu þingeyskra afurða í sínu rétta umhverfi

Það fer ekki hjá því að þeir gestir sem hingað koma fái bragð af þeim fjársjóði sem Þingeyska matarbúrið er. Áhugi gesta og stolt heimamanna hafa stuðlað að því að bændur og veitingastaðir á svæðinu hafa í auknum mæli reynt að bjóða ferðamönnum upp á vandaða heimaunna vöru. Um leið er reynt að miðla gestum af þeim hefðum sem tengjast þessu góðmeti, bæði við framleiðsluferlið og matarborðið. Í ferðamannafjósinu í Vogum í Mývatnssveit er gestum t.d. boðið að fylgjast með mjöltum um leið og þeir gæða sér á heimaunnum afurðum.