Menning og listir

Sagan er almenningi hugleikin og víða eru starfandi söfn sem fræða þá sem nú lifa um liðnar aldir og lífsbaráttu forfeðranna.
Í Safnahúsinu á Húsavík er gott bókasafn og einnig að Snartastöðum við Kópasker. Hefðbundin byggðasöfn eru í Safnahúsinu á Húsavík, Grenjaðarstað í Aðaldal og Snartarstöðum í Núpasveit. Minjasöfn má finna að Mánárbakka á Tjörnesi og í Sauðaneshúsi á Langanesi. Auk þeirra er fjöldi sérsafna. Þeirra á meðal eru Samgönguminjasafnið á Ystafelli, Hvalasafnið á Húsavík, Könnunarsögusafnið á Húsavík, héraðsskjalasafn, náttúrugripasafn, sjóminjasafn og ljósmynda- og filmusafn í Safnahúsinu á Húsavík og Fuglasafn Sigurgeirs að Neslöndum í Mývatnssveit. Í fjölbreyttri flóru sýninga má nefna Skjálftasetrið á Kópaskeri, Fræðasetur um forystufé á Svalbarða í Þistilfirði, sýningar í Gljúfrastofu og Laxárstöð, sumarsýningu Ystar í Bragganum í Öxarfirði og útilegumannasýningu í Kiðagili.