Þingeysk saga

Landnám í Þingeyjarsýslu

Sænski landkönnuðurinn Garðar Svavarsson uppgötvaði fyrstur manna að Ísland væri eyja og á Húsavík hafði hann vetursetu fjórum árum áður en Ingólfur Arnarson nam landið. Þingeyjarsýsla fullnægði vel þeim kröfum sem landnemar gerðu til landgæða og möguleika til lífsframfærslu. Landslag hentaði þar betur undir meðalstór fjölskyldubú en stórbýli sem voru færri en annars staðar á Norðurlandi. Fjöldi landnámsmanna er nafngreindur í Landnámu en af þeim má nefna Þóri Ketilsson sem nam Fnjóskadal, Gnúpa-Bárð sem í fyrstu nam Bárðardal en flutti sig seinna um set, Kampa-Grím sem nam Köldukinn, Grenjað Hrappsson sem bjó á Grenjaðarstað, Geira sem bjó á Geirastöðum í Mývatnssveit og Gunnólf kroppu sem nam Langanes. Mörg kumbl fyrstu Þingeyinganna hafa fundist í suðurhluta sýslunnar en fá í norðursýslunni.

Afkomendur landnámsmanna

Afkomendur landnámsmanna komu sér saman um þinghald í Þingey í Skjálfandafljóti um 963 og Þingeyjarþing kemur nokkuð við sögu fyrstu aldirnar, á söguöld og Sturlungaöld. Eru til sögur af þingeyskum köppum eins og t.d. Víga-Skútu sem bjó á Skútustöðum við Mývatn, atgerfismönnum í Reykdælasögu og Ljósvetningasögu.

Sögufrægir atburðir

Í síðastnefndu sögunni er m.a. sagt frá Þorgeiri Ljósvetningagoða sem þekktastur er fyrir þátt sinn í kristnitökunni árið 1000 og fyrir að hafa samkvæmt síðari tíma þjóðsögum kastað goðalíkneskjum sínum í foss í Skjálfandafljóti sem eftir það hafi verið nefndur Goðafoss.

Annar frægur atburður í Þingeyjarsýslu á söguöld var fall Þorgeirs Hávarssonar í Hraunhöfn á Melrakkasléttu. Þar var önnur helsta höfn í héraðinu. Eitt sinn er skip Þorgeirs lá í höfninni kom Þórarinn ofsi þar að landi. Til sjóorrustu kom og beið Þorgeir ósigur. Hann varðist hetjulega ofurefli og varð 14 manns að bana áður en hann féll. Var hann dysjaður á Hraunhafnartanga þótt kristni væri komin á og má enn sjá haug hans.

19. öldin – harðindi, fólksflótti og frumkvæði

Gos í Öskju á seinni hluta 19. aldar, hafísár og aðrir erfiðleikar urðu Þingeyingum og öðrum landsmönnum þung í skauti. Fjöldi fólks fluttist til Vesturheims og tiltrú marga á landið dvínaði. Andleg menning Þingeyinga stóð samt traustum fótum og því kom það í þeirra hlut að hafa forustu í þeirri vakningu sem varð á Íslandi á 19. öld. Hún fól m.a. í sér kröfur um aukið verslunarfrelsi, bætta menntun þjóðarinnar og aukna verklega framtakssemi. Til marks um þessa vakningu er stofnun fyrsta kaupfélags landsins á Þverá í Laxárdal árið 1882 en það varð fyrirmynd annarra kaupfélaga um land allt. Verslunin færðist í hendur landsmanna sjálfra og sjálfstæði landsins var í sjónmáli.