Húsavík og nágrenni

Hvalaskoðunarbær

Húsavík er stærsti bærinn í Þingeyjarsýslu, blómlegt samfélag við innanverðan Skjálfanda að austan. Þéttbýlismyndun hófst þar á seinni hluta 19. aldar en á Húsavík er elsta byggða ból á Íslandi því landkönnuðurinn Garðar Svavarsson hafði þar vetursetu fjórum árum áður en Ingólfur Arnarson settist að í Reykjavík. Sjávarútvegur, úrvinnsla landbúnaðarafurða, verslun og viðskipti hafa ávallt skipt Húsvíkinga mestu máli en á síðustu árum hefur ferðamannaþjónusta aukist mikið og fjöldi ferðamanna heimsækir bæinn á hverju ári. Vinsældirnar stafa af ríkulegri náttúrufegurð, vinalegu umhverfi, vinsælum hvalaskoðunarferðum út á Skjálfandaflóa og fjölbreyttri annarri afþreyingu auk nálægðar við fjölmargar náttúruperlur svæðiðsins.

Menningarbær

Í nálægum sveitum er víða að finna heitt vatn og gufu og skapar óbeisluð orka í iðrum jarðar Húsvíkingum og öðrum Þingeyingum mikla möguleika í framtíðinni. Húsavík er hreinlegur og snyrtilegur bær. Hjartað slær við höfnina en á hafnarsvæðinu er meðal annars að finna merkilegt hvalasafn. Við aðalgötu bæjarins stendur kirkjan sem byggð var árið 1907 eftir teikningu Rögnvalds Ólafssonar, einkennistákn bæjarins. Stutt frá henni er Safnahúsið þar sem er að finna byggðasafn, héraðsskjalasafn, náttúrugripasafn, sjóminjasafn og ljósmynda- og filmusafn. Í byggingunni er einnig Bókasafnið á Húsavík.

Notalegur bær

Á Húsavík er að finna allt sem ferðamenn sækjast eftir: hótel, gistiheimili, verslanir, veitingastaði, tjaldsvæði, skrúðgarð, sundlaug, golfvöll og fjölda skemmtilegra gönguleiða. Vinsæl gönguleið er t.d. hringinn í kringum Botnsvatn sem er skammt fyrir ofan bæinn og þar er líka veiðivon. Á Húsavíkurfjalli er útsýnisskífa og fagurt útsýni. Má á góðviðrisdögum sjá þaðan allt suður á Vatnajökul. Húsavíkurstofa, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, er staðsett í miðbænum.
Iðandi mannlíf er á Húsavík sumarlangt, en hápunktinum nær það á bæjarhátíðinni Mærudögum sem haldnir eru síðustu helgina í júlí ár hvert. Það er einstakt að upplifa þá stemningu sem þá myndast.

Nágrennið

Frá Húsavík er stutt í nokkrar helstu náttúruperlur á Norðausturlandi, svo sem Mývatn og Ásbyrgi. Í næsta nágrenni við bæinn er einnig falleg náttúra sem vert er að gefa sér tíma til að skoða.
Sunnan við bæinn er er Reykjahverfi, sem einnig tilheyrir Norðurþingi, og norðan Húsavíkur er Tjörnes.