Mývatnssveit og nágrenni

Náttúruparadís á heimsvísu

Mývatnssveit er óumdeilanlega einn elsti og þekktasti áfangastaður ferðamanna á Íslandi. Frá því sögur hófust hefur Mývatn og óviðjafnanleg náttúran umhverfis það heillað jafnt vísindamenn sem náttúruunnendur hvaðanæva úr heiminum og verið meðal þeirra staða sem flesta langar til að heimsækja, skoða og kanna. Í Mývatnssveit og nágrenni er þvílíkur fjöldi af náttúruperlum að ógerlegt er að gera þeim öllum skil hér, enda erfitt að lýsa þeirri ægifegurð sem umlykur mann á alla vegu í Mývatnssveit.

Mývatn – undirstaða lífríkisins

Mývatn er fjórða stærsta stöðuvatn á Íslandi, 37 km2 á stærð, mjög vogskorið og í því eru um 50 eyjar og hólmar. Tangar skipta vatninu í tvo flóa: Ytri- og Syðriflóa. Mývatn er mjög grunnt og sólarljós nær alls staðar til botns. Þar sem Mývatnssveit er eitt sólríkasta hérað landsins er ljóstillífun öflug í vatninu, það er einstaklega auðugt af næringarefnum og frjósamasta ferskvatn landsins. Það sem einkennir lífið í Mývatni öðru fremur er mikill vöxtur og viðgangur vatnaþörunga og lífríkið er ákaflega fjölbreytilegt og merkilegt. Á botninum er mikið af kísilþörungaskeljum, ofar syndir hin alþekkta Mývatnsbleikja innan um vatnagróður og á bökkum vatnsins og í hólmum vex safaríkur gróður. Vatnið vellur fram í ótal lindum undan hraunjaðrinum og næringarríkt jarðvatnið gefur fjölbreyttri flóru og fánu mátt.

Einstakt fuglalíf

Á og við Mývatn er mikið og fjölbreytt fuglalíf. Einkum lifa þar vatna- og votlendisfuglar af ýmsum tegundum en þekktast er Mývatn fyrir fjölda andategunda sem á sumrin eru fleiri við vatnið en á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Það eru margir samverkandi þættir sem búa að baki þessa einstaka andríkis. Frjósemi vatnsins, lítið dýpi þess og fjölbreytt lífríki í kringum vatnið ræður þar miklu um, en staðsetning Íslands á milli Evrópu og Vesturheims veldur því einnig að tegundasamsetning Anda á Mývatni og Laxá er einstök.
Rykmý setur mjög svip sinn á umhverfi Mývatns og af því dregur vatnið nafn sitt. Mývatn er verndað með sérstökum lögum og er á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði ásamt Laxá sem úr því rennur.

Eldgígar, eldfjöll og hraunmyndanir

Eldgígar og eldfjöll móta landslag Mývatnssveitar og frægar eldstöðvar eru þar margar, t.d. Krafla, Hverfjall (Hverfell), Lúdentsborgir og Þrengslaborgir. Úr þeim hafa runnið mikil hraun, allt niður til sjávar við Skjálfanda. Gervigígar setja mikinn svip á vatnsbakka og eyjar Mývatns, en þeir verða til þegar hraun rennur yfir vatn eða votlendi. Við það snöggsýður vatnið, þenst út og sprengir sér leið í gegnum storknandi hraunið. Gígaþyrpingin við Stakhólstjörn hjá Skútustöðum þykir einkar athygliverð og voru Skútustaðagígar friðlýstir sem náttúruvætti 1973.
Hverfjall er með stærstu og formfegurstu sprengigígum heims og setur sterkan svip á ásýnd sveitarinnar. Gígurinn er um 1 km í þvermál og 140 m djúpur. Góð gönguleið er upp á gígbarminn og umhverfis hann. Umhverfis Mývatn eru mörg svipmikil fjöll sem freista göngufólks, og ögra því, t.d. Reykjahlíðarfjall, Búrfell, Bláfjall, Sellandafjall og Vindbelgur, sem öll hafa myndast í gosi undir jökli.
Við Kröflu finnur maður vel nálægð náttúruaflanna, en þar gaus síðast 1984. Gufustrókar rísa hátt í loft og við Leirhnjúk er tilkomumikið að skoða nýja hraunið, svarblátt og hvasst, og sjá hvernig það liggur eins og skuggi yfir landinu þegar horft er yfir. Norðvestan í Kröflu er Víti, sprengigígur sem er um 300 metrar í þvermál og með grænu vatni í botninum.

Dimmuborgir

Hraunmyndanir við Mývatn eru alþekktar og finnast víða umhverfis vatnið. Hvergi eru þær þó eins mikilfenglegar og í Dimmuborgum, sem eru hraunborgir austan vatnsins um átta kílómetrum sunnan við þéttbýlið í Reykjahlíð. Dimmuborgir hafa langan aldur hefur verið ein þekktasta náttúruperla landsins. Þar eru ótal kynjamyndir, gataklettar, hvelfingar og hellar sem mynduðust í miklum eldsumbrotum fyrir um 2300 árum. Þeir sem leggja leið sína í Mývatnssveit ættu ekki að láta Dimmuborgir fram hjá sér fara.
Nánar um Dimmuborgir

Byggð, náttúruvernd og rannsóknir

Byggð er mikil við Mývatn og Reykjahlíð er höfuðstaður sveitarinnar. Þar hefur á síðustu áratugum orðið til 200 manna þorp með allri almennri þjónustu. Annar byggðar- og þjónustukjarni er á Skútustöðum sunnan Mývatns. Mývatnsstofa er upplýsingamiðstöð í Reykjahlíð sem rekin er í samstarfi heimamanna og umhverfisstofnunar og er þar veitt fræðsla um náttúru og verndun svæðisins. Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (RAMÝ) er til heimilis að Skútustöðum. RAMÝ starfar skv. lögum frá 1974 og annast ráðgjöf og rannsóknir á einstæðri náttúru svæðisins.

Auðug náttúra

Frá öndverðu hafa Mývetningar byggt afkomu sína á sauðfjárbúskap og silungsveiði í Mývatni og enn í dag er þessi blandaði búskapur mikilvægur þáttur í atvinnulífi sveitarinnar. Auk hefðbundinna vatns- og landnytja hafa ýmsar aðrar auðlindir á svæðinu verið nytjaðar í gegnum tíðina.
Austan við Námafjall er eitt mesta brennisteinshverasvæði landsins. Eins og nafnið vísar til, voru hér námur þar sem fyrr á öldum var unninn brennisteinn og hann fluttur út þar sem hann var aðallega notaður til púðurgerðar fyrir Danakonunga.
Hin mikla orka sem ólgar og stynur í iðrum jarðar hefur töluvert verið beisluð og í Bjarnarflagi er fyrsta og elsta gufuaflsvirkjun landsins og ein hinna fyrstu í heiminum. Tilraunaboranir fyrir gufuaflsvirkjun við Kröflu hófust árið 1974 en þar er líklega þekktasta gufuaflsvirkjun landsins. Í nær fjóra áratugi var kísilþörungaskeljum dælt úr setlögum af botni Mývatns og úr þeim unninn kísilgúr til útflutnings. Heimamenn höfðu af þessu atvinnu en vinnslan var alla tíð umdeild og árið 2004 var henni hætt.

Ferðaþjónusta

Sú auðlind sem Mývatnssveit er hvað þekktust fyrir er þó líklega Náttúrufegurðin. Svo lengi sem elstu menn muna hafa ferðalangar flykkst í Mývatnssveit og hefur þjónusta við þá í einhverju formi verið til staðar jafn lengi. Undanfarin ár hefur skipulögð ferðaþjónusta þó mjög farið vaxandi. Fjölbreytt gistiþjónusta er í boði og afþreyingarkostum fer fjölgandi.

Baðmenning í tengslum við jarðhita á sér langa sögu í Mývatnssveit en nýjasti kafli þeirrar sögu eru Jarðböðin við Mývatn. Vinsældir þeirra meðal gesta og heimamanna hafa aukist jafnt og þétt frá opnun þeirra 2006. Þá er vert að heimsækja hið glæsilega Fuglasafn Sigurgeirs við Ytri-Neslönd.

Vetrartöfrar

Samfara aukinni fjölbreytni hefur markvisst hefur verið unnið að því að lengja þann tíma sem þjónusta við ferðamenn stendur til boða. Fegurðin við Mývatn nýtur sín ekki síður þegar sveitin skrýðist vetrarklæðum og um aðventuna verður Mývatnssveit sannkallað töfraland jólanna. Þá njóta Mývetningar góðs af nábýli við jólasveinana sem búa í Dimmuborgum en undanfarin ár hafa sveitungar átt í ágætum samskiptum við þá og eru þeir jafnvel farnir að taka á móti gestum í Dimmuborgum.
Vetrarsport af ýmsum toga er orðinn árlegur viðburður við Mývatn sem og Píslargangan og tónlistarhátíð um páskana og Mývatnsmaraþon um vorið.

Áhugaverðir tenglar