Öxarfjörður og Melrakkaslétta

Austast á Tjörnesi er útsýnisstaður á Hringbjargi, efst í Hafnarbrekku. Útsýni er þar tilkomumikið yfir sveitirnar upp af Öxarfirði. Landslagið fyrir botni Öxarfjarðar einkennist helst af hinum víðáttumiklu óseyrum Jökulsár á Fjöllum. Úti við sjóinn eru miklir sandar sem áin hefur borið fram og eru nú víða grónir. Undirlendi Öxarfjarðar er mikilvægt svæði fyrir fugla. Það er mjög votlent, víða kjarri vaxið og hvarvetna eru ár og lækir, vötn og lón. Þótt landfræðilega megi horfa á þetta svæði sem eina heild eru hér í sögulegu tilliti tvö samfélög, aðskilin af Jökulsá á Fjöllum sem er önnur lengsta á landsins.

Kelduhverfi

Austan Jökulsár liggur Kelduhverfi sem eitt sinn var lýst sem “ríki út af fyrir sig” þar sem það lá einangrað milli hafs að norðan, öræfa að sunnan, fjallgarða að vestan og jökulfljótsins að austan. Sauðfjárbúskapur hefur alla tíð verið undirstaða mannlífs í Kelduhverfi. Bæirnir raðast nú nær allir við hraunbrúnina á mörkum undirlendisins og þar liggur þjóðvegurinn einnig. Áður voru nokkrir bæir niðri á Vestursandi en þar er ekki lengur búið þó nokkrum sé viðhaldið sem sumarhúsum.
Miðs vegar í sveitinni stendur Skúlagarður, félagsheimili Keldhverfunga. Þar hjá stendur tígulegur örn á stuðlabergssúlu, minnismerki eftir Guðmund frá Miðdal um Skúla Magnússon landfógeta sem kallaður hefur verið faðir Reykjavíkur, en hann fæddist í Keldunesi.

Þrjú sprungubelti liggja um Öxarfjörð og þar er jarðhiti töluverður sem enn hefur þó einungis lítillega verið nýttur. Við Lónin vestast í Kelduhverfi hefur Rifós stundað fiskeldi um árabil. Þar þykja aðstæður ákjósanlegar þar sem gnótt er af heitu vatni, ferskvatni og söltum sjó.

Víkingavatn er gamalt örnefni, en þar er fornt höfuðból sem stendur við samnefnt vatn. Ágæt veiði er í vatninu og þar er mikið og fjölskrúðugt fuglalíf. Nokkru austar er Skjálftavatn sem á sér öllu skemmri sögu, því það myndaðist við landsig í miklum jarðhræringum urðu á þessu svæði veturinn 1975-1976.

Einstakar náttúruperlur

Á leið sinni undan Vatnajökli til sjávar í Öxarfirði rennur Jökulsár á Fjöllum yfir nokkur sprungubelti á svonefndu eystra rekbelti. Í þúsundir ára hefur hún grafið, sorfið og slípað þetta unga land og mótað úr því þá stórfenglegu náttúrufegurð sem Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður utan um. Frá þjóðvegi 85 í Kelduhverfi liggur vegur í Þjóðgarðinn sem m.a. hefur að geyma Ásbyrgi, Hljóðakletta, Vesturdal, Hólmatungur og Dettifoss. Þjóðgarðurinn er tilvalinn til útivistar, gönguferða og náttúruskoðunar og best er að hefja ferðina í Gljúfrastofu, glæsilegri gestastofu þjóðgarðsins í mynni Ásbyrgis.

Svæðið umhverfis Dettifoss, Selfoss og Hafragilsfoss austan Jökulsár er skilgreint sem náttúruvætti og er í umsjón Þjóðgarðsins. Við austanverð Jökulsárgljúfur eru einnig náttúruperlur eins og Forvöð og Vígabjarg. Þessa staði má nálgast um Hólsfjallaveg sem liggur frá þjóðveginum í Öxarfirði rétt austan Jökulsár upp að hringvegi við Grímsstaði á Fjöllum.

Nánar um Þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum

Öxarfjörður og Melrakkaslétta

Austan Jökulsár er sveitin Öxarfjörður. Hún teygir sig frá söndum við botn fjarðarins suður að Hólssandi. Hólsfjöll, hálendið suður með Jökulsá að austan, einkennast af lágum móbergsfjöllum. Víða er sendið á þessum slóðum og mikill uppblástur en samt eru þarna góð beitilönd enda hefur sauðfé frá Hólsfjallabæjum ávallt verið rómað fyrir vænleika.

Nær ströndinni er ásýnd sveitarinnar hlýleg, víða eru birkiskógar og lág móbergsfjöll standa vörð um sveitina. Í Lundi er sundlaug og skóli sem sinnir ferðaþjónustu á sumrin. Norðan Öxarnúps tekur Núpasveitin við. Hún einkennist af lyngmóum, grónu hrauni og söndum. Í Núpasveit er Kópasker, lítið þorp þar sem er þjónusta við landbúnað og útgerð.
Fjölbreytt matvælaframleiðsla er á svæðinu og annáluð fyrir gæði. Jarðhiti í Öxarfirði nýtist m.a. til fiskeldis og lífrænnar ræktunar gulróta og á Kópaskeri er kjötvinnsla sem þekkt er fyrir afurðir sínar.

Melrakkaslétta er kunn fyrir hlunnindi, fiskveiðar, fjörubeit, æðarvarp, eggjatöku, og gjöful veiðivötn. Þarna er einstök náttúrufegurð á vorin og sumarkvöldum og fjölskrúðugt fuglalíf. Af Rauðanúp er stórkostlegt útsýni og návígi við fuglalífið í dröngunum Karli og Kerlingu.

Nyrst á sléttunni er Hraunhafnartangi, nyrsti hluti Íslands. Þar er Þorgeirsdys sem talin er vera haugur fornhetjunnar hugprúðu, Þorgeirs Hávarssonar, en frá vígi hans í frækilegum bardaga segir í Fóstbræðrasögu.

Raufarhöfn

Á austurströnd Sléttunnar er Raufarhöfn, nyrsta kauptún Íslands, aðeins 3 km frá heimskautsbaug. Útgerð hefur ávallt verið undirstöðuatvinnuvegur á Raufarhöfn og á síldarárunum var hér ein mesta uppskipunarhöfn landsins og iðandi mannlíf. Nú ríkir meiri kyrrð yfir þorpinu og þar er gott að dvelja um hríð, fara í gönguferðir, veiði, siglingar og njóta miðnætursólarinnar.

Umgjörð kaupstaðarins er einstaklega falleg. Höfnin liggur í skjóli Raufarhafnarhöfða og yfir henni vakir falleg kirkja, byggð eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar árið 1927. Ofan við þorpið er Melrakkaásinn og þar mun rísa stærsta útilistaverk á Íslandi, Heimskautsgerðið sem tvinnar saman íslenska menningu, bókmenntasögu og sígild vísindi við sérstæðar náttúruaðstæður.