Þingeyjarsveit

Þingeyjarsveit er mjög stórt sveitarfélag sem nær vestan frá Víkurskarði við Eyjafjörð austur á Hólasand og frá Flatey í norðri inn á Bárðarbungu í Vatnajökli. Íbúar eru um 700 og stunda flestir landbúnað. Einnig lifa margir af fiskvinnslu, skógrækt, matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu sem er vaxandi atvinnugrein enda er fjölda áhugaverðra staða að finna í sveitarfélaginu. Þar er gróðursæll og skógivaxinn Fnjóskadalurinn, um hann rennur Fnjóská sem er lengsta bergvatnsá landsins ar er einnig Vaglaskógur.

Skjálfandafljót er í Þingeyjarsveit, í fljótinu eru Goðafoss og Aldeyjarfoss. Þingey þar sem finna má ummerki um þinghald til forna er einnig í fljótinu en af henni dregur sýslan nafn sitt. Þá má nefna skólasetrið Laugar í Reykjadal þar sem í boði er öll nauðsynleg þjónusta fyrir ferðamenn.

Á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfanda eru Náttfaravíkur og Flateyjardalur. Þangað er gönguleið sem er öllum göngugörpum áskorun um holla hreyfingu og endurnærandi útivist. Í dalinn má líka komast á sumrin á jeppum og stórum bílum. Undan ströndinni er Flatey sem var í byggð frá 12. öld til ársins 1967.

Loks má minna á að í Þingeyjarsveit eru margar sögufrægar jarðir sem gaman er að heimsækja. Nefna má Hriflu þar sem Jónas Jónsson fæddist árið 1885 en hann var einn þekktasti stjórnmálamaður Íslendinga á fyrri hluta 20. aldar og jafnan kenndur við fæðingarstað sinn. Í Ljósavatnsskarði, sem tengir Fnjóskadal við Köldukinn og Bárðardal, hefur verið reist Þorgeirskirkja til minningar um kristnitökuna og Þorgeir Ljósvetningagoða. Hún er opin á sumrin. Söguslóðir er víðar að finna. Að Þverá í Laxárdal var fyrsta kaupfélag landsins stofnað árið 1882 og 20 árum seinna var SÍS stofnað á Ystafelli en þar er nú samgönguminjasafn.