Aðaldalur og Laxárdalur

Aðaldalshraun

Aðaldalur liggur fyrir botni Skjálfandaflóa milli Skjálfandafljóts og Hvammsheiðar og nær suður að Vestmannsvatni. Úti við sjóinn eru allbreiðir sandar. Undirlendi er mikið en Aðaldalshraun þekur mestan hluta sléttunnar. Í hrauninu eru skemmtilegar gönguleiðir, en það er víða vaxið kjarri og skartar fallegum hraunmyndunum. Góður flugvöllur er í Aðaldalshrauni en þangað er ekki reglulegt áætlunarflug.

Við bæinn Tjörn mætast þjóðvegur 85 sem liggur til Húsavíkur og áfram austur með ströndinni og þjóðvegur 845 sem liggur inn eftir Aðaldal og tengist þjóðvegi 1 í Reykjadal. Byggð er nokkuð dreifð í Aðaldal, en þéttbýlast er í kringum Hafralækjarskóla og Laxárvirkjun.

Grenjaðarstaður er forn kirkjustaður og eitt besta brauð landsins frá upphafi kristni og fram á 20. öld. Kirkjan sem nú stendur var reist árið 1865, en í kirkjugarðinum má m.a. finna rúnastein frá miðöldum. Grenjaðarstaðarbærinn gamli, sem er hluti af Byggðasafni Suður Þingeyinga, er í umsjón Þjóðminjasafns Íslands en elstu hlutar hans eru frá árinu 1865.

Þverá og Laxárgljúfur

Laxá í Aðaldal er ein þekktasta veiðiá landsins. Hún fellur úr Mývatni um Laxárdal og Aðaldal út í Skjálfanda. Laxárdalurinn er rómaður fyrir náttúrufegurð og þykir allt umhverfi árinnar einstaklega fagurt og frjósamt. Það einkennist af miklu fuglalífi og fjölskrúðugu gróðurfari.

Að Þverá í Laxárdal stendur merkilegur torfbær, en þar var fyrsta kaupfélag landsins, Kaupfélag Þingeyinga stofnað árið 1882. Torfbærinn hefur verið í umsjón Þjóðminjasafnsins síðan 1968 og þar hafa miklar endurbætur átt sér stað. Auk bæjarhúsanna hafa á Þverá varðveist útihús af fornri gerð. Þverá er kirkjustaður Laxdæla og er kirkjan þar enn í  bændaeign. Kirkjan var byggð árið 1878 og er hún úr höggnu móbergi líkt og kirkjugarðurinn umhverfis hana. Bærinn og búsetuminjarnar á Þverá þykja ekki síður merkilegar en Grenjaðarstaðabærinn.

Laxárgljúfur gengur fram úr Laxárdal og neðst í því er Laxárvirkjun. Laxárstöð er opin fyrir ferðamönnum á sumrin. Þar inni er sýning sem vakið hefur mikla athygli og einnig má þar fá upplýsingar um starfsemina og gönguleiðir í nágrenninu.

Áhugaverðir tenglar