Bárðardalur

Bárðardalur teygir sig um 45 km upp með Skjálfandafljóti. Vegur liggur beggja vegna fljótsins inn eftir öllum dal og inn af þeim liggja slóðir inn á hálendið. Innst í vestanverðum Bárðardal er bærinn Mýri og er þar upphaf Sprengisandsleiðar.

Skamman spöl sunnan við Mýri er Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti, sem margir telja með fallegri fossum landssins. Hann er ákaflega myndrænn þar sem hann steypist um þrönga rás innrammaður af háum stuðlabergssúlum.

Austan megin fljóts og alveg inni á heiði í jaðri Ódáðahrauns stendur Svartárkot, syðst allra býla í Þingeyjarsýslu og það sem hæst stendur. “Þar er himininn víður” eins og segir í kvæðinu um heiðarbýlið og fjallahringurinn fjarska fagur.

Á eyðijörðinni Stórutungu sem liggur á milli Svartár og Skjálfandafljóts er gistiþjónusta sem starfrækt er frá Víðikeri. Veiði er töluverð í ám og vötnum á þessum slóðum og fást veiðileyfi hjá landeigendum.

Kiðagil heitir félagsheimili Bárðdælinga og fyrrum skóli þeirra. Þar eru nú starfræktar skólabúðir á veturna og ferðaþjónusta sumrin. Kiðagil stendur vestan megin fljótsins um 20 km sunnan við Goðafoss og spölkorn sunnar, við bæinn Stóruvelli er brú yfir Skjálfandafljót.