Fnjóskadalur

Þegar ekið er frá Akureyri austur um Víkurskarð er komið ofan í Fnjóskadal. Eftir dalnum rennur Fnjóská, vinsæl veiðiá og jafnframt lengsta dragá landsins. Hún á upptök sín í Bleiksmýrardrögum á Sprengisandi, aðeins spölkorn norðan upptaka Þjórsár, og rennur til sjávar í Eyjafjörð um Dalsmynni.

Fnjóskadalur er gróðursæll og víða skógi vaxinn, enda merkir orðið fnjóskur þurrt viðarsprek. Um miðbik dalsins, austan Fnjóskár er Vaglaskógur, annar stærsti skógur landsins og með þeim stórvaxnari. Birkið nær þar yfir 12 m hæð. Vaglaskógur er hlýlegur og vinsæll áfangastaður og þar er góð aðstaða og þjónusta fyrir ferðamenn. Í Fnjóskadal eru einnig Lundsskógur og Þórðarstaðaskógur, suður af Vaglaskógi og Skuggabjargarskógur í Dalsmynni.

Innarlega í dalnum og vestan megin eru Illugastaðir, fornt höfuðból og kirkjustaður. Þar er nú rekin orlofshúsabyggð með þjónustumiðstöð, sundlaug og ýmis konar afþreyingu.

Innsti bær í Fnjóskadal sem enn er í byggð er Reykir. Þar fyrir sunnan kvíslast dalurinn í þrjá dali; Timburvalladal, Hjaltadal og Bleiksmýrardal. Byggð sem áður var í þessum dölunum er löngu farin í eyði, en útivistarfólk leggur í vaxandi mæli leið sína um þessa eyðibyggð.

Í utanverðum Fnjóskadal liggur aðalvegurinn austan megin árinnar. Nyrstur bæja vestan megin ár er kirkjustaðurinn Draflastaðir, en þar er ferðaþjónusta og margvísleg afþreying í boði. Þverá nyrsti bær í Fnjóskadal og stendur þar sem dalurinn greinist í Dalsmynni, sem liggur vestur til Grenivíkur og Flateyjardal, sem liggur áfram norður og opnast út í sjó við utanverðan Skjálfandaflóa.