Kaldakinn

Kinn

Eftir að Skjálfandafljótið steypist niður Goðafoss rennur það út í Skjálfanda um svæði sem í daglegu tali kallast Kinn. Sunnan til er dalurinn í raun tvískiptur því Kinnarfellið rís úr honum miðjum. Vestan þess liggur þjóðvegurinn um Kaldakinn. Þar, undir hlíðum Kinnarfellsins stendur bærinn Ystafell þar sem Samband Íslenskra Samvinnufélaga var stofnað 1902. Á Ystafelli er nú Samgönguminjasafn sem varðveitir fjölda merkilegra samgöngutækja auk sögulegra heimilda í máli og myndum.

Þingey

Skjálfandafljótið rennur austan Kinnarfells og greinist þar í tvær djúpar kvíslir. Rennur sú vestari meðfram Kinnarfelli og í henni er Barnafoss. Sú austari rennur undir hlíðum Fljótsheiðar en á milli þeirra liggur Þingey sem sýslan og sveitarfélagið draga nafn sitt af. Í Þingey eru minjar um hin fornu vorþing og telst hún með merkustu sögustöðum á landinu en er hins vegar fremur lítt þekkt sökum þess hve óaðgengileg hún er. Umhverfi eyjunnar er gróðursælt og einstaklega hlýlegt. Í hlíðinni vestan megin er Fellsskógur en austan fljótsins er náttúruperlan Fossselsskógur og Skuldaþingsey rétt undan fljótsbakkanum. Á milli Þingeyjar og Skuldaþingseyjar fellur Skjálfandafljótið ofan í Skipapoll um Ullarfoss.

Útkinn

Skammt norðan við Kinnarfell, við bæinn Ófeigsstaði, sveigir þjóðvegurinn til austurs yfir brú á Skjálfandafljótinu. Áfram liggur þó vegur vestan fljótsins og heitir þar Útkinn norður með Kinnarfjöllunum. Þar heitir nyrsti bær Björg en þaðan má ganga í Náttfaravíkur.

Áhugaverðir tenglar