Ljósavatnsskarð

Ljósavatnsskarð gengur austur úr Fnjóskadal og austast í því er vatnið sem skarðið dregur nafn sitt af. Við mynni Ljósavatnsskarðs mætast Bárðardalur til suðurs og Kinn til norðurs, en til austurs liggur þjóðvegur 1 yfir Fljótsheiði.

Á Sigríðarstöðum, um miðbik skarðsins er tjaldstæði, og í hlíðinni ofan við bæinn er Sigríðarstaðastaðaskógur. Nokkru austar er Stórutjarnaskóli, en þar er sundlaug og á sumrin er þar starfrækt sumarhótel. Ofan Stórutjarnaskóla á bænum Stórutjörnum má finna galleríið Surtlu.

Að Ljósavatni bjó Þorgeir goði Þorkelsson sem kvað upp um að Íslendingar skildu allir hafa einn sið og taka kristna trú. Í táknrænni athöfn þessu til staðfestingar var heiðnum líkneskjum varpað í Goðafoss sem þannig fékk sitt nafn. Árið 2000 var á Ljósavatni vígð ný kirkja í tilefni af þúsund ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Þorgeirskirkja er opin gestum á sumrin og vel þess virði að staldra þar við. Kirkjan þykir einkar falleg í einfaldleik sínum og athygli vekur að náttúran sjálf gegnir hlutverki altaristöflu þar sem hún blasir við gestum í gegnum stóran glugga sem spannar kórgaflinn veggja á milli.

Goðafoss í Skjálfandafljóti er einn þekktasti foss landsins. Hin sögulega tenging sem getið er að ofan veldur þar eflaust nokkru, en einnig kemur það til að hann þykir mjög fallegur og er auk þess í alfaraleið, aðeins spölkorn frá Þjóðveginum við bæinn Fosshól. Á Fosshóli er upplýsingamiðstöð og lítill þjónustukjarni. Þar er verslun, handverksmarkaður, veitingar og gisting á boðstólum svo nokkuð sé nefnt.