Reykjadalur

Í alfaraleið

Reykjadalur gengur suður úr Aðaldal vestanverðum og liggur milli Fljótsheiðar og Laxárdalsheiðar. Á Breiðumýri er félagsheimili sveitarinnar og rekin ferðaþjónusta á sumrin. Við Breiðumýri liggur Þjóðvegur 1 til vesturs yfir Fljótsheiði og suður eftir Reykjadal, yfir Laxárdalsheiði vestan Másvatns og upp í Mývatnssveit. Til norðurs er vegur um Aðaldal í átt til Húsavíkur.

Laugar

Litlu sunnar er skólasetrið Laugar í Reykjadal, þar sem bæði eru grunnskóli og framhaldsskóli. Á Laugum hefur myndast nokkur þéttbýliskjarni. Þar er miðstöð stjórnsýslu í Þingeyjarsveit og ýmis önnur þjónusta í boði, svo sem banki, verslun og veitingastaður. Á sumrin er þar starfrækt hótel, og auk þess bjóða fleiri aðilar upp á gistingu. Á Laugum er einnig sundlaug og frábær aðstaða til íþróttaiðkunar.

Reykjadalsá og Vestmannsvatn

Reykjadalur er vel gróinn, en landslagið þar er nokkuð frábrugðið dölunum í kring að því leiti að þar hefur ekkert hraun runnið og einkennist það meir af jökulmenjum. Reykjadalsá fellur um dalinn í Vestmannsvatn en þaðan rennur Eyvindarlækur um minni vötn yfir í Laxá. Áin og vatnasvæðið eru vinsæl til silungs- og laxveiða. Að Vestmannsvatni hafa vinsælar sumarbúðir verið starfræktar í áratugi.