Þistilfjörður, Langanes og Bakkafjörður

Þistilfjörður

Þegar komið er til Þistilfjarðar að vestan er horft yfir grænar og búsældarlegar sveitir sem óhjákvæmilega gleðja augað. Þær einkennast af grunnum dölum með gjöfulum laxveiðiám og lágum hálsum á milli. Byggðin er í neðanverðum dölunum og við ströndina. Fjörðurinn ber nafn Ketils þistils sem nam land á milli Hundsness og Sauðaness, en hreppurinn dregur nafn sitt af jörðinni Svalbarði, fyrrum stórbýli sem nú er kirkjustaður.

Svalbarðskirkja var byggð árið 1848 og þar hanga á kórþili handskrifuð erfiljóð sem talin eru ort og rituð af Bólu-Hjálmari. Á Svalbarði gerðust svokölluð Sólborgarmál árið 1893 sem Einari Benediktssyni skáldi og nýútskrifuðum lögfræðingi var falið að rannsaka og dæma. Á Svalbarði er einnig skóli sveitarfélagsins.

Á Ytra-Álandi er ferðaþjónusta sem einnig sinnir sumargistingu í Svalbarðsskóla. Á Gunnarsstöðum, austast í sveitinni er eitt stærsta fjárbú landsins. Á Laxárdal er einnig myndarlegt býli og þaðan liggur jeppaslóð inn á heiðina þar sem finna má skemmtilegar gönguleiðir.

Rauðanes er heillandi náttúruperla sem vert er að skoða. Þar má sjá ótal fallegar bergmyndanir, hella, gatakletta og fuglabjörg. Á Stakkatorfu er allmikil lundabyggð og víðfeðmt útsýni. Merkt hefur verið gönguleið um nesið, um sjö kílómetra hringur, kjörin fyrir alla náttúruunnendur.

Langanes

Hafralónsá rennur í Lónafjörð og skilur að Þistilfjörð og Langanes. Nesið teygir sig næstum 40 kílómetra út í dökkblátt hafið til norðausturs og endar í lítilli tá sem heitir Fontur. Frá upphafi byggðar og fram um miðja 20. öld var Langanes nær allt í byggð en síðan þá hafa jarðirnar á útnesinu farið í eyði og byggðin færst til Þórshafnar og nágrennis. Enn eru þó nokkrar jarðir norðan kauptúnsins í ábúð.

Hjarta Þórshafnar slær í takt við sjávarföllin og þar er gott að dvelja. Í þorpinu má finna alla nauðsynlega þjónustu og margt er að skoða í nágrenninu. Hér er eina kúffiskverksmiðja landsins og hvítir skeljastígar setja skemmtilegan svip á bæinn.

Sauðanes er forn kirkjustaður og fyrrum eitt af þremur eftirsóttustu brauðum landsins. Gamli prestsbústaðurinn á Sauðanesi er eitt af elstu hlöðnum steinhúsum landsins og er hluti af húsasafni Þjóðminjasafnsins. Það hýsir nú safn og upplýsingamiðstöð með veitingasölu fyrir ferðamenn.

Langanes er sannkölluð útivistarparadís sem býður upp á óteljandi möguleika til gönguferða og náttúruskoðunar. Ferð um útnesið er öllum ógleymanlegt ævintýri. Víða má sjá minjar um búsetu fólks. Farið er fram hjá eyðibýlum og komið að Skoruvík og Skoruvíkurbjargi. Undir bjarginu er Stórikarl en þar er eitt mesta súluvarp landsins. Þar hefur verið reistur veglegur útsýnispallur, Járnkarlinn, sem er all mikið járnvirki er skagar fram af brún Skoruvíkurbjargs í námunda við Stóra Karl.
Á miðju nesinu rís Heiðarfjall en þaðan er stórkostlegt útsýni í allar áttir af. Vel sést út Langanesið og inn til Bakkaflóa og allt austur að fjöllunum við Héraðsflóa.

Á Skálum á austanverðu nesinu var á árunum 1910-1946 hið myndarlegasta fiskveiðiþorp. Nú er hægt að komast þessa leið á fólksbílum ef varlega er farið en rétt er að leita upplýsinga á Þórshöfn áður en lagt er af stað. Fyrir göngufólk er um nokkrar skemmtilegar gönguleiðir að ræða, t.d. er stikuð leið frá eyðibýlinu Hrollaugsstöðum á sunnanverðu nesinu út í Skálar.

Bakkaflói

Syðst á austanverðu Langanesi er Gunnólfsvíkurfjall og eru þar skil milli landsfjórðunga. Þar tók áður við Skeggjastaðahreppur í Norður-Múlasýslu, en hann er nú hluti Langanesbyggðar. Gunnólfsvíkurfjall er einkar tignarlegt þar sem það rís beint úr sjó upp í 719 m hæð og þaðan er ægifagurt útsýni. Í góðu skyggni sést þaðan allt suður til Herðubreiðar og Dyngjufjalla.

Austan og sunnan Langaness tekur við Langanesströndin sem liggur við botn Bakkaflóa, en hann skiptist í Finnafjörð, Miðfjörð og Bakkafjörð. Á Langanesströnd er m.a. að finna Djúpalæk sem skáldið þjóðkunna Kristján Einarsson frá Djúpalæk kenndi sig við. Annað landsþekkt skáld af Langanesströnd var Magnús Stefánsson frá Kverkártungu, en hann tók sér listamannsnafnið Örn Arnarson og orkti m.a. “Hafið, bláa hafið”. Skeggjastaðakirkja er elsta kirkja á austurlandi, byggð úr rekaviði 1845. Kirkjuna lét Sr. Hóseas Árnason en hún hlaut gagngerar endurbætur 1961-62.

Á seinni hluta 19. aldar myndaðist þorp í kringum útgerð og verslun í landi Hafnar við Bakkafjörð. Áður hét þorpið Höfn, en er nú í daglegu tali kallað Bakkafjörður. Frá fyrstu tíð hefur lífið á Bakkafirði að mestu snúist um fiskveiðar, þrátt fyrir fremur bága hafnaraðstöðu lengst af. Í þorpinu sjálfu stendur “gamla bryggjan” en á níunda áratug síðustu aldar var gerð ný höfn rétt sunnan við þorpið og er þaðan töluverð smábátaútgerð. Höfnin er einstaklega falleg og þar gefst kjörið tækifæri til að fylgjast með þeirri einstöku stemningu sem fylgir þessari tegund af útgerð.