Ævintýrakort barnanna

Þekkingarnet Þingeyinga hefur gefið út skemmtilegt afþreyingarkort fyrir alla fjölskylduna en það heitir Ævintýrakort barnanna – Bakkafjörður, Langanes og Þistilfjörður. Kortið er uppfullt af fróðleik um dýr, plöntur, skeljar, fjörur, vita og áhugaverða staði og miðar að því að mest alla afþreyingu sé hægt að finna í náttúrunni á svæðinu.

Aðalatriðið er síðan að börnin taki þátt í Garpakeppninni, þar eru garpastig tengd við þau atriði sem finna má í máli og myndum í kortinu t.d. fást garpastig fyrir að vaða berfættur í sjónum, fyrir að finna og þekkja vallhumal, syngja fyrir selina, þekkja dýraskít, tína rusl og fullt af stigum fyrir að finna flöskuskeyti. Þegar ákafur keppandi hefur náð 30 garpastigum þá fæst viðurkenningarskjal hjá helstu ferðaþjónustuaðilum sem staðfestir að viðkomandi sé Ævintýragarpur. Mikil áhersla er lögð á það að bera virðingu fyrir náttúrunni, skilja ekki eftir rusl og hrófla ekki við dýralífi eða taka fuglaegg.

Allar þær fínu teikningar sem tilheyra kortinu gerði Margrét Brá Jónasdóttir, 16 ára listamaður. Vonast er til að þetta hafi hvetjandi áhrif á alla fjölskylduna til útivistar og samveru úti í náttúrunni.
Kortið má kaupa hjá flestum ferðaþjónustuaðilum á umræddu svæði.
Lesendum er einnig heimilt að hlaða kortið niður til útprentunar.