Bakkafjörður

Syðst á austanverðu Langanesi er Gunnólfsvíkurfjall og eru þar skil milli landsfjórðunga. Þar tók áður við Skeggjastaðahreppur í Norður-Múlasýslu, en hann er nú hluti Langanesbyggðar. Gunnólfsvíkurfjall er einkar tignarlegt þar sem það rís beint úr sjó upp í 719 m hæð og þaðan er ægifagurt útsýni. Í góðu skyggni sést þaðan allt suður til Herðubreiðar og Dyngjufjalla.

Austan og sunnan Langaness tekur við Langanesströndin sem liggur við botn Bakkaflóa, en hann skiptist í Finnafjörð, Miðfjörð og Bakkafjörð. Á Langanesströnd er m.a. að finna Djúpalæk sem skáldið þjóðkunna Kristján Einarsson frá Djúpalæk kenndi sig við. Annað landsþekkt skáld af Langanesströnd var Magnús Stefánsson frá Kverkártungu, en hann tók sér listamannsnafnið Örn Arnarson og orkti m.a. “Hafið, bláa hafið”. Skeggjastaðakirkja er elsta kirkja á austurlandi, byggð úr rekaviði 1845. Kirkjuna lét Sr. Hóseas Árnason en hún hlaut gagngerar endurbætur 1961-62.

Á seinni hluta 19. aldar myndaðist þorp í kringum útgerð og verslun í landi Hafnar við Bakkafjörð. Áður hét þorpið Höfn, en er nú í daglegu tali kallað Bakkafjörður. Frá fyrstu tíð hefur lífið á Bakkafirði að mestu snúist um fiskveiðar, þrátt fyrir fremur bága hafnaraðstöðu lengst af. Í þorpinu sjálfu stendur “gamla bryggjan” en á níunda áratug síðustu aldar var gerð ný höfn rétt sunnan við þorpið og er þaðan töluverð smábátaútgerð. Höfnin er einstaklega falleg og þar gefst kjörið tækifæri til að fylgjast með þeirri einstöku stemningu sem fylgir þessari tegund af útgerð.