Langanes

Útvörður í Norðaustri

Á milli Þistilfjarðar og Bakkaflóa skagar Langanes næstum 40 kílómetra út í dökkblátt hafið til norðausturs og skilur á milli Norðurlands og Austurlands. Langanes endar í lítilli tá sem heitir Fontur. Frá upphafi byggðar og fram um miðja 20. öld var Langanes nær allt í byggð en síðan þá hafa jarðirnar á útnesinu farið í eyði og byggðin færst til Þórshafnar og nágrennis. Enn eru þó nokkrar jarðir norðan kauptúnsins í ábúð.

Þórshöfn og Sauðanes

Hjarta Þórshafnar slær í takt við sjávarföllin og þar er gott að dvelja. Í þorpinu má finna alla nauðsynlega þjónustu og margt er að skoða í nágrenninu. Hér er eina kúffiskverksmiðja landsins og hvítir skeljastígar setja skemmtilegan svip á bæinn.

Sauðanes er forn kirkjustaður og fyrrum eitt af þremur eftirsóttustu brauðum landsins. Gamli prestsbústaðurinn á Sauðanesi er eitt af elstu hlöðnum steinhúsum landsins og er hluti af húsasafni Þjóðminjasafnsins. Það hýsir nú safn og upplýsingamiðstöð með veitingasölu fyrir ferðamenn.

Fuglabyggð og útivistarparadís

Langanes er sannkölluð útivistarparadís sem býður upp á óteljandi möguleika til gönguferða og náttúruskoðunar. Ferð um útnesið er öllum ógleymanlegt ævintýri. Víða má sjá minjar um búsetu fólks. Farið er fram hjá eyðibýlum og komið að Skoruvík og Skoruvíkurbjargi. Undir bjarginu er Stórikarl en þar er eitt mesta súluvarp landsins. Á miðju nesinu rís Heiðarfjall en þaðan er stórkostlegt útsýni í allar áttir af. Vel sést út Langanesið og inn til Bakkaflóa og allt austur að fjöllunum við Héraðsflóa.
Á Skálum á austanverðu nesinu var á árunum 1910-1946 hið myndarlegasta fiskveiðiþorp. Nú er hægt að komast þessa leið á fólksbílum ef varlega er farið en rétt er að leita upplýsinga á Þórshöfn áður en lagt er af stað. Fyrir göngufólk er um nokkrar skemmtilegar gönguleiðir að ræða, t.d. er stikuð leið frá eyðibýlinu Hrollaugsstöðum á sunnanverðu nesinu út í Skálar.