Þistilfjörður

Þegar komið er til Þistilfjarðar að vestan er horft yfir grænar og búsældarlegar sveitir sem óhjákvæmilega gleðja augað. Þær einkennast af grunnum dölum með gjöfulum laxveiðiám og lágum hálsum á milli. Byggðin er í neðanverðum dölunum og við ströndina. Fjörðurinn ber nafn Ketils þistils sem nam land á milli Hundsness og Sauðaness, en hreppurinn dregur nafn sitt af kirkjustaðnum Svalbarði.

Svalbarðskirkja var byggð árið 1848 og þar hanga á kórþili handskrifuð erfiljóð sem talin eru ort og rituð af Bólu-Hjálmari. Á Svalbarði gerðust svokölluð Sólborgarmál árið 1893 sem Einari Benediktssyni skáldi og nýútskrifuðum lögfræðingi var falið að rannsaka og dæma. Á Svalbarði er einnig skóli sveitarfélagsins.

Á Ytra-Álandi er ferðaþjónusta sem einnig sinnir sumargistingu í Svalbarðsskóla. Mörg myndarleg sauðfjárbú eru í Þistilfirði og þar stendur sauðfjárrækt á gömlum merg. Frá Laxárdal liggur jeppaslóð inn heiðina og út frá þeirri leið má víða velja skemmtilegar gönguleiðir um heillandi heiðalönd. Margar fengsælar veiðiár renna í Þistilfjörð, má t.d. nefna Hafralónsá, Hölkná, Sandá og Svalbarðsá

Af veginum yfir Öxarfjarðarheiði er vörðuð gönguleið á Óttarshnjúk en þaðan blasa við æskuslóðir rithöfundarins Jóns Trausta. Sumir telja að þar sé komið sögusviðið í ritverki hans, Halla og heiðarbýlið.

Rauðanes er heillandi náttúruperla sem vert er að skoða. Þar má sjá ótal fallegar bergmyndanir, hella, gatakletta og fuglabjörg. Á Stakkatorfu er allmikil lundabyggð og víðfeðmt útsýni. Merkt hefur verið gönguleið um nesið, um sjö kílómetra hringur, kjörin fyrir alla náttúruunnendur.